Fundur var haldinn í Veðurklúbbnum á Dalbæ 5. júní síðast liðinn. Fundarmenn voru nokkuð ánægðir með spána fyrir maí mánuð.
Júní tungl kviknar 19. júní kl. 15:02 í S.S.V. Áætla fundarmenn að norðlægar áttir verði ríkjandi fram undir miðjan júní. Eftir það fari að hlýna í lofti.
Farið var að tala um horfur á berjasprettu í framhaldi af vinda- og veðurspá. Frekar voru fundarmenn svartsýnir á berjasprettu sumarsins.
Draumar fundarmanna voru misjafnir allt frá heyi og moði, sem fénaður leit ekki við. Bendir þessi draumur til þess að kalt verði næstu daga og gráni í fjöll.
Með sumarkveðju,
Veðurklúbburinn á Dalbæ