Veðurklúbburinn á Dalbæ hefur nú sent frá sér nóvemberspá sína en fundað var í klúbbnum þriðjudaginn 4. nóvember 2014.
Farið var yfir veðurspá síðasta mánaðar og voru fundarmenn nokkuð sáttir við síðustu spá þó svo að úrkoma hafi verið heldur meiri en ætlast var til.
Búast má við að veður verði mjög svipað í nóvember eins og það var í október með þó smá rumpum af og til eins og búast má við á þessum árstíma. Nýtt tungl mun kvikna 22. nóv. , sem verður áhrifavaldur fyrir veðurfar í seinni hluta nóvember og fram í desembermánuð. Tunglið kviknar í S kl. 12:32 og er laugardagstungl sem er góðs viti hvað veðurfar þar á eftir snertir.
Til frekari trúverðurleika á spánni má geta þess að fullt tungl verður 6. nóv. í NV kl. 22:23 og er það metið hagstætt hvað veðurlíkindi í næstu framtíð snertir.
Þá voru draumar um silungsveiðar og mismundi stærð silunga til þess að styrkja klúbbfélaga enn frekar í spádómum sínum.
Með góðri kveðju,
Veðurklúbburinn á Dalbæ