Veðurklúbburinn á Dalbæ hefur nú sent frá sér veðurspá febrúarmánaðar en þriðjudaginn 3. feb. 2015 komu félagar í klúbbnum saman til fundar.
Hvað varðar spá klúbbsins fyrir janúarmánuð , þá voru fundarmenn ágætlega sáttir við sannleiksgildi síðustu veðurspár. Veður hafi verið rysjótt og umhleypingasamt svo sem reiknað var með. Búast má við að veður í febrúarmánuði verði svipað og var í janúar, umhleypingasamt áfram en meira um sunnan og suðvestanáttir og líkindi fyrir einu veðurskoti. 3. febrúar var fullt tungl en nýtt tungl kviknar í NV þann 18. febrúar kl. 23:47, sem er góutungl og miðvikudagstungl. Þykir það gott fyrir veðurhorfur fram undan.
Það er álit fundarmanna að það muni vora snemma í ár. Það álit er byggt á draumum og ýmsu öðru, sem ekki verður gefið frekar upp.
Nánari spádómar um vorkomu verða gerðir síðar.
Að venju látum við fylgja gamlan kveðskap, sem einn af klúbbfélögum, Gunnar Rögnvaldsson, lærði í æsku.
“ Febrúar á fannir,
og læðist geislinn lágt.
Í mars þá blæs oft biturt
en birtir smátt og smátt.”
Veðurklúbburinn á Dalbæ