Borist hafa upplýsingar frá atvinnuvegaráðuneytinu um byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2014/2015. Samkvæmt þeim fær Dalvík 201 þorskígildistonn, Hauganes 15 og Árskógssandur 300. Á síðasta fisveiðiári fékk Dalvík 99 þorskígildistonn en 300 á fiskveiðiárinu 2012/2013. Sveiflurnar hafa því verið miklar á Dalvík. Hauganes og Árskógssandur hafa hinsvegar verið með sama tonnafjölda öll þessi ár.
Reglugerð um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa er efnislega óbreytt frá fyrra ári. Ef sveitarfélög vilja setja sérstök skilyrði umfram ákvæði reglugerðarinnar þurfa þau að skila rökstuddum tillögum til ráðuneytisins eigi síðar en 1. nóvember nk. Atvinnumála- og kynningarráð Dalvíkurbyggðar mun fara yfir reglugerðarákvæðin og gera þá mögulega tillögur um breytingar til sveitarstjórnar.
Í því skyni samþykkti atvinnumála- og kynningarráð á síðasta fundi sínum að boða viðeigandi hagsmunaaðila á fund til sín þriðjudaginn 21. október kl. 17:00 í Ráðhúsinu til þess að fara yfir þessi mál.