Nú er jólaskreytinganefndin búin að fara um allt sveitarfélagið og skoða jólaskreytingar. Valið um fallegustu skreytinguna var erfitt í ár því að margir hafa skreytt hús sín mjög fallega og lagt mikinn metnað í skreytingarar. Sigurvegararnir að þessu sinni eru ábúendur á Þverá í Svarfaðardal, þau Símon, Eiríkur og Guðrún, en húsið er mjög fallegt með hvítum ljósum í öllum skúmaskotum og gefur það þessu fallega húsi virðulega blæ í skammdegismyrkrinu. Eigendurnir hafa lagt mikið á sig við skreytingarnar og hljóta að verðlaunum veglega ostakörfu. Þess má líka geta að Eiríkur sér einnig um skreytingar á Tónlistarskóla Dalvíkur og á Húsabakka og Rimum
Að auki fengu sérstakar viðurkenningar Sævar og Ragnheiður fyrir Mímisveg 15 á Dalvík, með fallegar skreytingar í garði og utan á húsi, og Halla og Zophonías fyrir Goðabraut 17 á Dalvík með skemmtilegar gluggaskreytingar og flott heildarútlit.
Mímisvegur 15 á Dalvík Goðabraut 17 á Dalvík
Dómnefndin vill einnig benda íbúum á að víða leynast aðrar skemmtilegar skreytingar eins og skreyttur húsbíll í Hjarðarslóð á Dalvík, litlir fuglar á skjólvegg við Aðalbraut 3 á Árskógssandi, fallegir gluggar í Ægisgötu 1 á Dalvík og fallegar gluggaskreytingar í Ásholti 3 á Hauganesi. Einnig er jólatréð í garðinum á Goðabraut 15 mjög fallegt og fyrir ofan raðhúsin í Öldugötu á Arskógssandi er skreyttur bátur. Það er líka mikið af fallegum skreytingum í Svarfaðardal og alveg þess virði að fá sér bíltúr þangað til að skoða þær.
Jólaskreytingasamkeppnin byrjaði fyrst 1996 þegar Júlíus Júlíusson hóf keppnina til að færa örlítið meira líf í skreytingar í bænum og er þetta því í tólfta sinn sem hún er haldin. Hann fékk Guðmund Inga Jónatansson í Víkurprent í lið með sér en þeir voru síðan í dómnefndinni ásamt góðu fólki hvert sinn. Árið 2004 tók síðan Margrét Víkingsdóttir, upplýsingafulltrúi hjá Dalvíkurbyggð, keppnina að sér og hefur skipulag hennar verið í höndum starfandi upplýsingafulltrúa allt frá því.