Nú er unnið að því að gera nokkurs konar torg á milli gömlu verðbúðanna við Dalvíkurhöfn. Hellulagt verður austan og sunnan við ytri-verbúðina og gengið frá svæðinu á milli verbúðanna með malbiki, en þar er núna einungis malbikað að hluta. Síðan stendur til að koma þarna fyrir minningarsteininum vegna sjóslysanna 1963 sem og vatnshananum sem Jón Ægir gaf Dalvíkingum á síðasta Fiskidag. Þessi framkvæmd á að vera tilbúin fyrir Fiskidaginn mikla í ár.
Ferðamenn sækja mjög í hafnir og umhverfi þeirra. Á Dalvík og Árskógssandi eiga fjölmargir ferðamenn leið um hafnirnar til að komast í ferjur til Hríseyjar og Grímseyjar. Einnig eiga fjölmargir leið um Hauganeshöfn og Dalvíkurhöfn til að fara í hvalaskoðun. Það er því mikilvægt að ferðaþjónustuaðilar gaumgæfi þau tækifæri sem þarna eru vannýtt varðandi þjónustu við þennan sívaxandi hóp. Umhverfi hafna er víða að breytast, rétt eins og hér, og ný tækifæri eru sífellt að skapast fyrir aðra starfsemi.