Sýningin Norðurland 2005 mjög vel heppnuð

Sýningin Norðurland 2005 mjög vel heppnuð

Um hvítasunnuhelgina var sýningin Norðurland 2005 haldin á Akureyri. Alls voru 65 aðilar með bása á sýningunni og er óhætt að segja að þar hafi verið saman kominn þverskurður af mannlífi, atvinnulífi og þjónustu á Norðurlandi. Sýningin heppnaðist mjög vel og kom fjöldi fólks til að kynna sér það sem í boði var. Dalvíkurbyggð var með mjög vel heppnaðan bás á sýningunni og kom fjöldi gesta og kynnti sér það sem þar var í boði.

Tilgangur veru Dalvíkurbyggðar á sýningunni var að nota tækifærið og kynna Dalvíkurbyggð sem vænlegan búsetukost. Af því tilefni var gefinn út bæklingur sem ber yfirskriftina, "Dalvíkurbyggð, spurning um lífsstíl", en í honum er að finna ýmar upplýsingar um Dalvíkurbyggð svo sem umatvinnulíf, þjónustu sveitarfélagsins, íþrótta og æskulýðsmál og menningarmál. Bæklingurinn verður síðan notaður áfram í frekari kynningar en einnig er hægt að nálgast eintak af honum á bæjarskrifstofunni á Dalvík.

Ýmislegt skemmtilegt var um að vera á bás Dalvíkurbyggðar, gestir gátu mátað skóna hans Jóhanns Svarfdælings, kynnt sér korta - og þjónustukerfi sveitarfélagsins sem er til staðar inn á heimasíðunni www.dalvik.is og tekið þátt í skemmtilegum spurningaleik um Dalvíkurbyggð. Alls tóku 230 manns þátt í spurningaleiknum en vegleg verðlaun voru í boði. Á laugardeginum var dreginn út ferðavinningur fyrir fjölskyldun, allt að fimm manns, og var þessum aðilum boðið í sund, á byggðasafnið og í hvalaskoðun á Hauganesi. Ferðakistlinn frá Sæplast var í boði á sunnudeginum og höfðu ýmsir áhuga á að eignst þann grip.

Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar og viðskiptaráðherra opnaði sýninguna á föstudeginum kl. 16:00 og gekk síðan um svæðið og skoðaði sýningarbásana. Hérna á myndinn má sjá Valgerði kynna sér þá kosti sem korta - og þjónustukerfi sveitarfélagsins býður uppá með dyggri aðstoð Sigbjörns Jónssonar hjá Snertli, en Snertill er fyrirtækið sem hannar og stýrir kerfinu.

 

Ferðavinninginn hlaut Elvar Óli Marinósson á Árskógssandi.

Ferðakistilinn hlaut Elín Kjartansdóttir á Akureyri.

 

Sælgætisgerðin Moli á Dalvík var einnig með bás á sýningunni og vakti hann athygli gesta enda básinn mjög glæsilegur. Eigendur Molans eru mjög ánægð með sýninguna og hafa í framhaldi af henni gert samninga við ýmsa aðila um framleiðslu á molum í merktum umbúðum.