Aðsend mynd frá Bryndísi Önnu Hauksdóttur
Vinnuhópur um gerð fjölmenningarstefnu fyrir Dalvíkurbyggð hefur frá árinu 2017 unnið að gerð fjölmenningarstefnu fyrir Dalvíkurbyggð. Vinna við stefnuna var sett á ís á meðan unnið var að málstefnu sveitarfélagsins en sú stefna var samþykkt árið 2019. Það er von vinnuhópsins að með þessari fjölmenningarstefnu eignumst við í Dalvíkurbyggð úrræði til að koma í veg fyrir félagslega einangrun innflytjenda og til þess að sporna markvisst gegn fordómum. Þar er öll fræðsla mjög mikilvæg s.s. fræðsla um fjölmenningu, alþjóðavæðingu og neikvæðar afleiðingar fordóma. Einnig vonast vinnuhópurinn til þess að fyrirtæki og félagasamtök í sveitarfélaginu leggist saman á eitt þannig að öll getum við gengið í sama takti þegar kemur að þessum málaflokki. Það er hagsmunamál samfélagsins alls.
Í stefnunni má m.a. finna markmið og mögulegar leiðir til ávinnings í fjölmenningarmálum og er sett fram sýn Dalvíkurbyggðar á aðkomu sveitarfélagsins í þeim málum.
Stefnuna má finna með því að smella hér
Sveitarstjórn samþykkti samhljóða með 7 atkvæðum framkomna Fjölmenningarstefnu Dalvíkurbyggðar á fundi sínum þann 21. janúar og þakkar vinnuhópi fyrir þeirra störf.