36. Íslandsmót öldunga í blaki var haldið í Vestmannaeyjum dagana 5.-7.maí. Blaklið Rima í Dalvíkurbyggð sendi 4 lið á mótið, tvö karlalið og tvö kvennalið. A-lið karla spilaði í 2.deild og krækti sér í silfurverðlaun. Á-lið karla fékk einnig silfur í 4.deild og vann sér rétt til þátttöku í 3.deild að ári. A-lið kvenna átti glæsilegt mót, vann alla sína leiki í 6.deild og þar með gullið og bikar og þátttökurétt í 5.deild að ári. Ekki var næg þátttaka á landsvísu hjá öðlingum kvenna 40 ára og eldri þannig að B-lið kvenna keppti í 10.deild, þar urðu þær í 2.sæti og fóru upp um deild.
Mikil stemmning var á mótinu sem var haldið í fyrsta skipti í Vestmannaeyjum. Hægt var að sigla til og frá Landeyjahöfn á flóði þannig að ferðaplanið gekk upp, þó þurfti að leggja af stað kl. 07:00 á sunnudagsmorgni frá Vestmannaeyjum og voru margir þreyttir enda frábært lokahóf að baki sem stóð fram á nótt. Á lokahófinu var tilkynnt um mótshaldara fyrir 37.öldungamótið að ári og er ánægjulegt að segja frá því að það verður haldið á Tröllaskaga í samvinnu blakfélaganna á Siglufirði og í Dalvíkurbyggð. Um 1000 keppendur tóku þátt í mótinu ár þannig að víst er að hér verður mikið fjör í lok apríl á næsta ári.