Eins og flestum er kunnugt flutti Bókasafn Dalvíkurbyggðar í nýtt húsnæði með tilkomu menningarhússins Bergs. Bókasafnið flutti þar með upp úr kjallara Ráðhússins en þar hafði það haft aðsetur sitt í 20 ár. Það er skemmst frá því að segja að viðtökurnar við nýrri staðsetningu hafa verið frábærar. Það sýnir sig í stórauknum útlánum en þau hafa aukist jafnt síðan í ágúst og nú er svo komið að heildarútlán fyrir árið 2009, janúar - október, eru orðin 11.805 en voru 12.122 allt árið 2008. Lánþegum hefur einnig fjölgað úr 248 í 325. Að sögn Sigurlaugar, forstöðumanns, spilar bætt aðgengi að safninu stórt hlutverk í þessum aukna fjölda bókaútlána og lánþega.