Slökkvilið Dalvíkur - á vaktinni allan sólarhringinn

Slökkvilið Dalvíkur - á vaktinni allan sólarhringinn

Það er frost og stillur, tunglið er fullt og skín glatt á himni þennan miðvikudagsmorgun þegar ég bregð mér í heimsókn á slökkvistöðina á Dalvík. Á móti mér tekur olíu- og vélalykt en gengið er beint inn í aðalsal slökkviliðsins sem hefur að geyma allan búnað liðsins. Inn af salnum er skrifstofa slökkviliðsstjórans, Vilhelms Antons Hallgrímssonar (Villa), en hann hefur verið starfandi slökkviliðsstjóri síðastliðin tvö ár. Áður var hann starfsmaður slökkviliðsins á Akureyri.
Skrifstofan er hlý og notalega og næsta klukkutímann spjöllum við Villi um ýmislegt sem tengist slökkviliðinu.


Starfssvæði Slökkviliðs Dalvíkur nær yfir Dalvík, Svarfaðardal og Árskógsströnd, úr miðjum Ólafsfjarðargöngum suður að Fagraskógi. Slökkvistöðin er staðsett við Gunnarsbraut á Dalvík en í sama húsi eru lögreglan, sýslumaðurinn og Björgunarsveitin á Dalvík. Húsnæðið er á tveimur hæðum. Á neðri hæðinni er allur búnaður, bílar og tæki, skápar fyrir persónubúnað slökkviliðsmanna og skrifstofa slökkviliðsstjóra. Á efri hæðinni er kaffiaðstaða og kennslurými. Liðið býr því við nokkuð góðan kost hvað varðar húsnæði.
Slökkviliðið hefur til umráða tvo dælubíla og einn lagnabíl. Dælubílarnir eru ágætlega útbúnir og hefur annar þeirra svokallaðan „one – sewen“ búnað, sem margfaldar slökkvimátt vatnsins sem á honum er. Einnig eru björgunarklippur á báðum dælubílum slökkviliðsins. Fyrir dyrum stendur að endurnýja lagnabílinn á næsta ári og uppfæra hlutverk hans. Þá eru einnig til staðar lausar dælur sem notaðar eru þar sem erfitt er um vatnstöku og dæla getur þurft langar leiðir. Slökkviliðið hefur líka dælubúnað á Árskógströnd sem þjónar því svæði ef færð hamlar för yfir Hámundastaðaháls á vetrum.


Í slökkviliðinu eru starfandi 16 fastir liðsmenn. Auk þess er 12 manna hjálparlið sem kalla má út ef þörf er á sérstökum viðbúnaði.


Slökkviliðisstjóri er í 100% starfi og varaslökkviliðisstjóri í 30% starfi. Þeir ásamt tveimur varðstjórum skipta með sér bakvöktum. Þannig er bakvakt frá slökkviliðinu allan sólarhringinn, allt árið. Starf slökkviliðsstjórans er fjölbreytt og felst meðal annars í eldvarnaúttektum hjá stofnunum og fyrirtækjum, umsögnum vegna leyfisveitinga, viðhaldi á búnaði slökkviliðsins sem og þjálfun slökkviliðsmanna og fræðslu til almennings. Þess má geta að skoðunarskyldir staðir á starfssvæðinu eru um 150. Eins hringja íbúar gjarnan til að fá ráðleggingar og þá fer slökkvilisstjóri líka í heimsóknir til fólks ef þess er óskað. Slökkviliðsstjórinn skipuleggur og ber ábyrgð á öllu starfi og starfsmönnum slökkviliðsins og er æðsti yfirmaður á brunastað.


Venjan er að liðið hittist á sunnudagsmorgnum á slökkvistöðinni þar sem menn fá sér kaffi og spjalla. Slökkviliðsstjóri skipuleggur fræðslu fyrir starfsmenn sem fer fram þessa morgna ásamt æfingum í kjölfarið. Það er létt yfir og almennt góð stemmning í liðinu. Fundir eru 1-4 klukkustundir allt eftir því hvað er tekið fyrir hverju sinni. Búnaður er tekin fram vikulega, bílar keyrðir, dælur prófaðar og svo framvegis svo að tryggt sé að allt virki ef á reynir. Fyrir utan vikulega fundi og æfingar eru slökkviðsmenn hvattir til að halda sér í þjálfun og eru reykkafarar liðsins reglulega sendir í læknisskoðun og þrekpróf til að sýna fram á þeir séu starfinu vaxnir.


Villi segir að best sé að menn komi inn í þjálfun hjá slökkviliðum upp úr tvítugu en algengt sé að út á landi séu menn að koma inn í þjálfun eldri en það. Staðan er önnur varðandi mönnun hjá landbyggðarliðum heldur en hjá stóru atvinnuliðunum sem hafa úr fleira fólki að moða. Á móti kemur að hjá minni slökkviliðum búa menn oft yfir langri starfsreynslu sem hefur mikið að segja þegar út í átök er komið.


Hluti af starfi slökkviliðisstjóra er að hafa yfirumsjón með gerð og framfylgni Brunavarnaáætlunar fyrir Dalvíkurbyggð. Áætlunin er yfirgripsmikið skjal þar sem fram kemur hvernig Slökkvilið Dalvíkur er búið, hvaða þjónustustig það veitir og hvaða þjónustustig það ætlar að veita og hvernig. Áætlunin leggur grunn að gæðastjórnun og er jafnframt úttekt á starfsemi slökkviliðsins fyrir sveitarstjórn og Brunamálastofnun. Einnig veitir áætlunin íbúum upplýsingar um veitta þjónustu, skipulag slökkviliðsins og markmið með rekstri þess. Þessi misserin er brunavarnaráætlunin í endurskoðun en hægt er að sjá áætlunina á heimasíðu Dalvíkurbyggðar www.dalvikurbyggd.is 


Nú er að nálgast sá árstími þar sem fólk er mikið með ljós og kerti í hýbýlum sínum og vill Villi brýna það fyrir fólki að fara að öllu með gát, athuga hvort að ekki sé í lagi með alla reykskynjara og að slökkvitæki séu á sínum stað, og í lagi. Það er aldrei of varlega farið þegar kemur að þessum málum.


Það er orðið bjart af degi þegar við Villi kveðjumst, tunglið er horfið inní birtuna og svei mér ef það er ekki farið að hlýna líka.

Margrét Víkingsdóttir, upplýsingafulltrúi