Fiskidagurinn mikli 2012 heiðrar alla þá sem stunduðu hákarlaveiðar og stóðu fyrir þilskipaútgerð bænda úr Svarfaðardal á seinnihluta 19. aldar.
Hákarl hefur öldum saman verið nýttur hér á Íslandi, en á 18. öld er farið að veiða hann í meira mæli en áður, aðallega vegna lifrarinnar til lýsisframleiðslu, en mikil spurn var eftir hákarlalýsi til götulýsinga víða erlendis. Þetta var orkuútflutningur þeirra tíma. Verðið var hátt og veiðarnar jukust mikið alla 19. öldina og verða eiginlega undirstaðan undir þilskipaútgerðina á þeirri öld. Þilskipin voru stærri og gátu sótt lengra, bikuð svört og seglin dökk. Davíð Stefánsson hefur séð þessi skip frá Fagraskógi og yrkir Nú sigla svörtu skipin, þar sem hann lýsir þeim háska sem fylgdi hákarlaveiðunum
Veiðarnar gátu skilað miklum hagnaði og menn gátu jafnvel greitt fyrir þilskip eftir eina vertíð. Þannig komu útgerðarmenn fótum undir sig. Mikilvægi hákarlaveiða minnkar síðan upp úr 1870 því þá er komin til sögunnar ný tegund orku, steinolía, sem keppir við hákarlalýsið. Þá sneru útgerðarmenn þilskipa sér að öðrum fiskveiðum og vægi þorskveiða jókst til muna. Þessum kafla í útgerðarsögunni, og orkuútflutningi Íslendinga, var lokið.
Hér á Norðurlandi hófst þilskipaútgerð rétt fyrir miðja öldina. Hér voru það fyrst og fremst bændur sem tóku sig saman og mynduðu samlagsútgerð til að stunda hákarlaveiðar og var þilskipaútgerðin langöflugust á Eyjafjarðasvæðinu. Svarfdælir tóku á þessum árum virkan þátt í útgerð þilskipa sem stunduðu hákarlaveiðar. Með þessum veiðum sáu menn peninga, þetta gátu verið mikil uppgrip og það átt m.a. þátt í að því að stofnaðir voru sparisjóðir. Þannig hafði hákarlaveiðin margvísleg áhrif sem vara enn í dag.
Á Fiskidaginn mikla hafa þeir feðgar Reimar Þorleifsson og Gunnar Reimarsson sýnt hákarl. Svo er einnig nú og getið þið gestir okkar litið á skepnuna hér frami á bryggjunni og fylgst með hákarlaskurði klukkan 15.
Ég bið ykkur svo að klappa fyrir hákarlaveiðimönnum sem lögðu með sínum hætti grunn að því samfélagi sem við höfum í dag. Minnismerki um hákarlaveiðina er nú komið við Byggðasafnið Hvol.