Nótan – Uppskeruhátíð Tónlistarskóla á Norð-Austurlandi

Nótan – Uppskeruhátíð Tónlistarskóla á Norð-Austurlandi

Nótan – Uppskeruhátíð Tónlistarskóla á Norð-Austurlandi fór fram í Ketilhúsinu laugardaginn 10. mars.

 

Tónlistarskólinn okkar tók þátt og sendi frá sér þrjú atriði að þessu sinni. Í flokki einleiksatriða lék Laufey Ipsita Stefánsdóttir á fiðlu.
Í flokki samleiksatriða voru það tvö atriði frá okkur sem tóku þátt. Elín Brá Friðriksdóttir lék á þverflautu ásamt Helga Halldórssyni sem lék með á gítar. Einnig léku Hjörleifur Helgi Sveinbjörnsson, Patrekur Óla Gústafssonar og Gunnlaugur Rafn Ingvarsson saman á harmónikur.
Má með sanni segja að nemendur okkar hafi allir staðið sig með mikilli prýði. Þeir léku af öryggi og færni og var frammistaða þeirra til fyrirmyndar.
Nemendurnir í atriðunum þremur spiluðu af færni og öryggi og frammistaða allra nemendanna var til fyrirmyndar.
Nótan – uppskeruhátíð tónlistarskóla er samstarfsverkefni Félags tónlistarskólakennara, Félags íslenskra hljómlistarmanna og Samtaka tónlistarskólastjóra.
Uppskeruhátíðin er hugsuð sem ný vídd í starfsemi tónlistarskóla og standa vonir til að hátíðin verði í senn faglega hvetjandi og skemmtilegt innlegg í starfsemi tónlistarskóla fyrir aðstandendur skólanna jafnt innan veggja þeirra sem utan.
Tónlistarskólar landsins eru um níutíu talsins. Þar fer fram gríðarlega fjölbreytt og öflugt starf og með hátíðinni er kastljósinu beint að þessum samfélögum og tónlistarnemendum veittar viðurkenningar fyrir afrakstur vinnu þeirra. Markmiðið er að auka sýnileika og styrkja tengsl tónlistarskóla við umhverfi sitt.
Uppskeruhátíðin er þrískipt og skipulögð þannig að allir geti tekið þátt. Þátttakendur eru frá öllu landinu, á öllum aldri og efnisskráin endurspeglar ólík viðfangsefni tónlistarnemenda á öllum stigum tónlistarnáms.