Í athöfn í Ketilhúsinu á Akureyri síðdegis í gær afhenti Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri á Akureyri, verðlaun í samkeppni um hönnun merkis fyrir félagið "Matur úr héraði - Local food" en félagið hefur að markmiði að vekja athygli á eyfirskum matvælum og matseld. Með merkinu verður til nokkurs konar gæðastimpill fyrir eyfirskt hráefni, matvælaframleiðslu eða matseld. Verðlaunamerkið í samkeppninni er hannað af Guðrúnu Elfu Skírnisdóttur. Friðrik V. Karlsson, veitingamaður og eigandi veitingastaðarins Friðrik V á Akureyri var jafnframt heiðraður sérstaklega fyrir að hafa með öflugum hætti haldið heiðri eyfirskrar matvælaframleiðslu og matarmenningar á lofti hérlendis og erlendis.
Félagið "Matur úr héraði - Local food" var stofnað í maí síðastliðnum og er upprunnið úr starfi innan matvæla- og ferðaþjónustuklasa Vaxtarsamnings Eyjafjarðar. Félagið hefur að markmiði að hefja á loft eyfirsk matvæli og eyfirskt eldhús. Eitt af fyrstu verkefnum félagsins var að hrinda í framkvæmd samkeppni um hönnun merkis sem nota mætti sem einkenni og gæðastimpil fyrir matvælaframleiðslu og matarmenningu í Eyjafirði í víðum skilningi.
Mörg verkefni framundan
Félagið "Matur úr héraði - Local food" mun á komandi misserum vinna að markaðssetningu á verkefninu í heild og eflingu samstarfs þeirra aðila á Eyjafjarðarsvæðinu sem koma að matvælameðhöndlun á einhvern hátt, tengja saman eyfirska matvælaframleiðendur og veitingamenn, taka þátt í sýningum og viðburðum þar sem tækifæri gefast á að kynna eyfirsk matvæli og eldhús og þannig mætti telja. Með tilkomu nýja merkisins opnast öllum aðilum í matvælagreininni á svæðinu möguleiki á að einkenna vörur sínar á skýran hátt upprunanum á Eyjafjarðarsvæðinu. Slík tenging má telja að sé nokkuð ný af nálinni hér á landi.
Þátttaka í félaginu "Matur úr héraði - Local food" er opin öllum þeim sem starfa við matvæli á Eyjafjarðarsvæðinu á einn eða annan hátt, t.d. matvælafyrirtæki og veitingahús.
Stjórn félagsins er skipuð fimm fulltrúum og kjörin af félagsmönnum á aðalfundi. Stjórnina skipa nú: Auðjón Guðmundsson, Kjarnafæði, Hanna Dögg Maronsdóttir, Norðurmjólk, Ingvar Már Gíslason, Norðlenska, Sigurbjörn Sveinsson, KEA Hótel og Júlíus Júlíusson, framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla á Dalvík.
Á næstu dögum verður opnuð heimasíða félagsins og eru matvælaframleiðendur í Dalvíkurbyggð hvattir til að kynna sér starfssemi félagsins og vera með frá upphafi.