Ittoqqortoormiit eða Scoresbysund er vinabær Dalvíkurbyggðar á Grænlandi. Bærinn er á norðaustur Grænlandi staðsettur við minni Kangertittivaq fjarðar og er ein af afskekktustu byggðum Grænlands. Aðstæður íbúa Ittoqqortoormiit eru gjörólíkar þeim þægindum sem við eigum að venjast. Undirlendi er lítið, ekkert rennandi vatn og samgöngur mjög erfiðar. Þangað er bara hægt að komast á þyrlum auk þess sem hægt er að komast að bænum á bátum fáeina mánuði á ári. Íbúafjöldi er um það bil 450. Lífsbaráttan er hörð en staðurinn er þekktur fyrir villta náttúru og dýralíf svo sem ísbirni, moskuxa og seli. Veiðimenn hafa í gegnum kynslóðirnar lifað af hval- og ísbjarnaveiði en veiði er enn þann dag í dag stór hluti af atvinnu- og menningarlífi staðarins. Hafís kemur í veg fyrir fulla nýtingu á auðlindum hafsvæðisins í kring en það er ríkt af rækju og fiski. Ferðaþjónusta hefur hins vegar verið vaxandi atvinnugrein.
Í gegnum árin hefur Dalvíkurbyggð, í samvinnu við Nonna travel, sent þessum vinabæ sínum jólatré fyrir jólin. Í ár vorum við svo heppin fá sendar nokkrar myndir af því þegar kveikt var á jólaljósunum á trénu með viðhöfn. Þess má geta að vegna hundanna verður að hækka tréð sérstaklega mikið upp til að forðast skemmdir. Við fengum líka bréf frá bæjarstjóranum þar sem kemur fram að samfélagið sé þakklátt fyrir að fá jólatré frá íbúum Dalvíkurbyggðar ár hvert. Jólatréð sé fallegt og lýsi upp myrkustu dagana á norðaustur Grænlandi.