Undanfarin ár hefur Dalvíkurbyggð sent vinabæ sínum á Grænlandi, Ittoqqortoormiit, jólatré fyrir jólin. Í ár var jólatréð keypt af Skógræktarfélagi Reykjavíkur og flutt með flugi til Grænlands. Sóroptimistasystur á Akureyri sendu einnig jólagjafir til Ittoqqortoormiit og ferðaskrifstofan Nonni Travel sendi einnig góðgæti og ljósaperur á tréð en ferðaskrifstofan hefur séð um skipulagið á þessum sendingum til vinabæjar okkar. Allur varningurinn var fluttur á snjósleðum frá flugvellinum yfir frosinn Scoresbyfjörð, sem er sá lengsti í heimi, og til þorpsins um það bil 50 km. leið. Síðasta sunnudag, 29. nóvember, 1. sunnudag í aðventu, var síðan kveikt á jólatrénu eins og ráðgert hafði verið.