Aukið lýðræði, samráð og upplýsingamiðlun er ein meginkrafa okkar samtíma. Sveitarfélögin eru þar ekki undanskilin og geta stuðlað að þessu með margvíslegum hætti. Ein leiðin er að leita eftir auknu samráði við íbúa er varðar málefni sveitarfélagsins og er það í anda Lýðræðisstefnu Dalvíkurbyggðar sem staðfest var af sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar 16. janúar 2013. Lýðræðisstefnan er stefna Dalvíkurbyggðar um upplýsingagjöf og samráð við íbúa sbr, X. Kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og Upplýsingastefnu Dalvíkurbyggðar.
Með tilkomu Mín Dalvíkurbyggð, íbúagáttar sveitarfélagsins, aukast möguleikar Dalvíkurbyggðar á að eiga gagnvirk samskipti við íbúanna og auka upplýsingagjöf. Einn möguleikinn sem gáttin býður uppá er að þar er hægt að setja af stað kannanir á ýmsum verkefnum sveitarfélagsins. Öll svör í gáttinni eru dulkóðuð og því ekki rekjanleg.
Þessi möguleiki hefur nú verið nýttur í fyrsta skipti en á gáttinni stendur yfir könnun á stöðu húsnæðismarkaðar í Dalvíkurbyggð. Könnunin er fyrsta skref okkar í því að gefa íbúum tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri með þessum hætti. Íbúar eru því hvattir til að kynna sér gáttina nánar og taka þátt í þessari könnun. Þannig hjálpið þið okkur að þróa þennan vettvang. Markmiðið er að nýta gáttina enn frekar sem lið í því að kanna hug íbúanna.
Könnunin er opin til 15. nóvember og verða niðurstöður hennar nýttar á fyrirtækjaþingi sem haldið verður 20. nóvember en markmið þingsins er að skoða og ræða stöðuna á húsnæðismarkaði sveitarfélagsins með áherslu á nýbyggingar. Íbúar eru hvattir til að svara þessari könnun en hérna eru allar nánari upplýsingar um Könnun á stöðu húsnæðismarkaðar í Dalvíkurbyggð.