Hugmyndir fyrir fundinn um þéttingu byggðar við þegar tilbúnar götur
Umhverfisráð Dalvíkurbyggðar bauð upp á íbúafund fimmtudaginn 11. apríl sl. þar sem kynntar voru hugmyndir sem unnið hefur verið með um þéttingu byggðar við þegar tilbúnar götur á Dalvík á þegar tilbúnum lóðum. Fundurinn var haldinn í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík og hófst kl. 20:00, sjá nánar auglýsingu á heimasíðu Dalvíkurbyggðar.
Börkur Þór Ottósson, sviðsstjóri umhverfis- og tæknisviðs, bauð fundarmenn velkomna. Góð mæting var á fundinn. Monika Margrét Stefánsdóttir, varaformaður umhverfisráðs, var fundarstjóri. Fyrst til máls tók Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri, sem kynnti fundarefni og tildrög fundarins.
Á 311. fundi sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar þann 19. mars 2019 var til umföllunar tillaga umhverfisráðs frá 15. mars 2019 að breytingu á deiliskipulagi vegna Hringtúns. Bókun og tillaga umhverfisráðs hljóðar svo: "Til umræðu erindi frá íbúum við Hringtún og Miðtún vegna grenndarkynningar lóðanna Hringtún 17 og 19.
Á fundi sínum 19. febrúar 2019 fól sveitarstjórn sviðsstjóra umhverfis- og tæknisviðs að grenndarkynna óverulegt frávik á deiliskipulagi lóðanna Hringtún 17 og 19. Breytingin fólst í stækkun á byggingarreitum, aukningar á byggingarmagni og að heimilt sé að byggja parhús í stað einbýlishúsa á lóðunum við Hringtún 17 og 19 samkvæmt meðfylgjandi uppdrætti nr. 1 frá arkitektastofunni Form ráðgjöf dags. 04.02.2019. Send voru út grenndarkynningargögn á sjö næstu nágranna og þeim kynnt tillagan og gefinn frestur til að gera skriflegar athugasemdir við tillöguna til umhverfisráðs innan fjögurra vikna, eða til miðvikudagsins 20. mars 2019.
Þann 5. mars 2019 barst sviðsstjóra umhverfis- og tæknisviðs sameiginlegt athugasemdarbréf vegna breytingartillögunnar frá átta næstu nágrönnum Hringtúns 17 og 19. Megininntak athugasemda nágrannanna lítur að túlkun á 43. gr. skipulagslaga þ.e.a.s. hvort fyrrgreinda breytingartillögu eigi að túlka sem óverulega breytingu sem er grenndarkynnt eða sem almenna deiliskipulagsbreytingu með málsmeðferð skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Einnig gera nágrannarnir athugasemdir við breytingu á húsgerðum, þ.e.a.s úr einbýlishúsum yfir í parhús. Einnig bárust erindi frá eigendum að Hringtúni 21 og 30 ásamt Miðtúni 3 og 4 þann 14. mars. Umhverfisráð leggur til að tekið verði tillit til athugasemda nágranna um að eðlilegra sé að breytingartillagan lúti málsmeðferð skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga og verði auglýst sem deiliskipulagsbreyting. Umhverfisráð telur almennt séð ekki vera grundvallarmun á yfirbragði parhúsa og einbýlishúsa nema að því leyti að hús geta verið ólík í útliti. Væntanlega munu parhús ekki breyta yfirbragði hverfisins svo fremi sem þau verða í svipuðum mælikvarða og sú byggð sem komin er. Aukning umferðar vegna tveggja viðbótaríbúða er óveruleg og breytir ekki stöðu nágranna í neinum grundvallaratriðum. Umhverfisráð leggur einnig til að gerðar verði eftirtaldar breytingar á grenndarkynntri tillögu á lóðum nr. 17 og 19 við Hringtún:
1) Að heildarbyggingarmagn á lóðum nr. 17 og 19 verði aukið úr 260 m² í 300 m².
2) Að lóð nr. 17 við Hringtún verði stækkuð um 94.3 m² á kostnað lóðar nr. 19.
3) Að byggingarreitir lóða nr. 17 og 19 við Hringtún séu stækkaðir um 1 m til vesturs.
4) Að norðurmörk byggingarreits lóðar nr. 17 við Hringtún verði færð um 2 m til suðurs, og verði eftir breytingu 5 m frá norðurlóðarmörkum í stað 3 m.
5) Að suðurmörk byggingarreits lóðar nr. 17 við Hringtún verði færð til suðurs um 4.2 m.
6) Að byggingarreit lóðar nr. 19 við Hringtún verði hliðrað um 4.2 m til suðurs.
7) Að austurmörk byggingarreita verði óbreytt miðað við gildandi deiliskipulag. Umhverfisráð felur sviðsstjóra að auglýsa deiliskipulagstillöguna í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga með ofantöldum breytingum frá áður grenndarkynntri tillögu.
Samþykkt samhljóða með fimm atkvæðum. "
Sveitarstjórn samþykkti samhljóða með 7 atkvæðum að fresta ofangreindri afgreiðslu á tillögu umhverfisráðs um breytingu á deiliskipulagi vegna Hringtúns. Sveitarstjórn vísaði því til umhverfisráðs að fara vel yfir og kortleggja öll svæði á Dalvík við þegar tilbúnar götur þar sem hægt væri að koma fyrir minni eignum, fjölbýli, par-og raðhúsum. Tillögurnar yrðu lagðar fyrir byggðaráð og niðurstöður færu í framhaldinu í almenna kynningu.
Rökstuðningur sveitarstjórnar fyrir ofangreindu er að það er stefna sveitarstjórnar að fjölga íbúum í Dalvíkurbyggð. Í nýsamþykktri húsnæðisáætlun Dalvíkurbyggðar fyrir árin 2019-2027 kemur fram að áætluð fjölgun í sveitarfélaginu um 25 íbúa kallar á um 10 nýjar íbúðir og er þörfin áætluð þannig: 3 fjölbýli, 6 par-og raðhús, 1 einbýli.
Eftirspurn í nýbyggingum undanfarin ár hefur verið mest í minni eignir og eins og er er engin skipulögð lóð laus fyrir parhús eða raðhús á Dalvík. Þetta hamli framþróun á byggingarmarkaði og því áríðandi að leitað sé lausna.
Árni Ólafsson, skipulagsfræðingur, kynnti þær hugmyndir sem unnið hefur verið með út frá hugmyndum umhverfisráðs hvað varðar mögulegar staðsetningar á lóðum fyrir parhús eða raðhús. Mismunandi er hvort að þær hugmyndir kalli á breytingar á aðalskipulagi og/eða deiliskipulagi, þar sem það er til.
Að lokinni kynningu Árna Ólafssonar opnaði fundarstjóri á almennar umræður og kallað var eftir að fólk kæmi með 3 neikvæða punkta og 3 jákvæða punkta. Samandregið er almennt ekki meðbyr með þeim hugmyndum að byggja á opna svæðinu við Hólaveg við Kirkjubrekkuna og hið sama á við að ganga á græna svæðið þar sem Lágin er. Varlega eigi að fara í að breyta lóðum á skipulagi sem þegar er búið að gefa út. Komið var inn á tímabundna niðurfellingu gatnagerðargjalda samkvæmt ákvörðun sveitarstjórnar á síðasta kjörtímabili. Nefnt var að ekki sé ástæða til þéttingar byggðar þar sem nægt landsvæði sé til staðar. Tilgreindar voru lóðirnar við Ægisgötu, ofan við kirkjugarðinn, við Svarfaðarbraut og Tungulóðin sem áhugaverða valkosti. Nokkur umræða var um bílastæðamál í svokallaðri Ungó-beygju og svæði fyrir snjósöfnun vegna snjómoksturs. Í tengslum við skipulagningu á nýjum svæðum kom fram mikilvægi þess að skipuleggja svæði í heild sinni en ekki setja niður stök hús án þess að vita að hverju er stefnt.
Fundi lauk um kl. 21:35 og eftir það hófst fundur í umhverfisráði Dalvíkurbyggðar. Umhverfisráð leggur til að eftirfarandi svæði verði tekin til endurskoðunar, sjá nánar á meðfylgjandi teikningum með fréttinni:
- Deiliskipulag Hóla- og Túnahverfis, tillögur 5,6,7 og 9.
- Deiliskipulag Lokastígsreits, tillaga 1.
- Nýtt deiliskipulag við Svarfaðarbraut, tillaga 10.