Handritin heim - Physiologus í Bergi

Handritin heim - Physiologus í Bergi

Þann 12. maí síðastliðinn opnaði í Bergi menningarhúsi sýning um handritið Physiologus. Sýningin er liður í verkefninu Handritin alla leið heim sem Árnastofnun gengst fyrir í samvinnu við menningarráð og söfn víða um land. Verkefnið tengist því að á þessu ári eru 350 ár liðin frá fæðingu Árna Magnússonar handritasafnara og snýst um að koma upp sýningum á völdum handritum úr safni hans, sem næst þeim stað þaðan sem Árni fékk þau.

Á sýningunni í Bergi verður sýnd nákvæm eftirgerð blaða úr skinnhandriti frá um 1200 sem geyma afar fornan texta. Þetta er íslensk þýðing úr latínu á riti sem upphaflega var ritað á grísku á 2. öld e.Kr. Þar er fjallað um ýmsar skepnur og einkenni þeirra lögð út á guðfræðilegan hátt. Handritið er ekki síst merkilegt fyrir myndir sem sýna dýrin og eru áreiðanlega með elstu teikningum sem varðveist hafa á Íslandi. Handritið kom til Árna Magnússonar frá séra Þórði Oddssyni á Völlum í Svarfaðardal.

Um endurgerð handritsins sá Hersteinn Brynjólfsson forvörður en Finnur Arnar Arnarson myndlistarmaður hannaði sýninguna ásamt Sigrúnu Sigvaldadóttur grafískum hönnuði. Menningarráð Eyþings styrkti verkefnið.

Á opnunarhátíðinni í Bergi lýstu Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur og Hugleikur Dagsson teiknari kynnum sínum af handritinu og komu eftirgerðinni fyrir á sýningunni en Svanhildur Óskarsdóttir handritafræðingur fjallað um efni þess og sögu. Hér fyrir neðan má sjá erindi Svanhildar sem hún flutti af þessu tilefni.

UM PHYSIOLOGUS Á DALVÍK
Svanhildur Óskarsdóttir 12. maí 2013

Blöðin sem hér verða sýnd eru í rauninni glæný skinnblöð en þau draga sannarlega langan slóða sem teygir sig næstum tvö þúsund ár aftur í tímann. Þetta eru blöð úr vönduðu bókfelli sem forvörðurinn okkar á Árnastofnun, Hersteinn Brynjólfsson, keypti frá Englandi til þess að útbúa þessa eftirgerð Physiologusar sem komin er heim í hérað. Á blöðin voru svo prentaðar ljósmyndir af handritinu sjálfu, frumritinu, sem geymt er hjá okkur á stofnuninni en það er hvorki meira né minna en 800 ára gamalt, talið skrifað um 1200 og í hópi elstu handritanna í Árnasafni. Handritið hefur látið mjög á sjá í aldanna rás, það er ekki lengur bundið heldur liggur í lausum blaðpörum eða tvinnum eins og við köllum tvö samföst blöð, bókfellið er rotið og komin göt á blöðin sem Hersteinn hefur endurgert á sannfærandi hátt!

Efnið sem blöðin geyma er merkilegt, ekki síst fyrir það að þar fara saman texti og myndir og þessar myndir eru með elstu íslensku teikningum sem varðveist hafa. Hér er á ferðinni íslensk þýðing, gerð úr latínu, á texta sem var mjög vinsæll um alla Evrópu á miðöldum. Physiologus þýðir ‘Náttúrufræðingurinn’ og í textanum er fjallað um ólík dýr, tínd til einkenni þeirra og síðan útskýrt fyrir hvað þau standa í kristilegum siðaboðskap. Svona er til dæmis talað um fuglinn nycticorax sem er einhvers konar nátthegri, næturhrafn:

Görr em ek sem nycticorax. Vér vitum að hann er svartur of daga en miklu svartari á nótt. Svá sé ek mik sjálfan svartan vera fyrir syndir mínar.

Og þetta er meðal annars sagt um hval:

Er hvalur í sæ er heitir aspedo og er of bak sem skógur sé. En í miðju hafi skýtur það upp baki sínu en skipverjar ætla ey vera og festa skip sitt við þar og kynda elda síðan. En aspedo kennir hita og drekkir sér í sjó og öllum skipverjum. Svo eru og þeir menn sviknir er hafa von sína undir djöfli og gleðjast í hans verkum og drekkjast í eilífar kvalar með fjanda.

Þessi dýrafræði er runnin frá grísku riti fornu. Það var að minnsta kosti komið í umferð á 4. öld en er hugsanlega enn eldra. Því var fljótlega snúið á latínu og síðan á ótalmargar þjóðtungur, þar á meðal á íslensku. Engar aðrar norrænar þýðingar hafa varðveist.

Ég sagði áðan að handritið væri frá um 1200 en aldursákvörðunin er m.a. byggð á skriftinni og líka á málstiginu  sem stafsetningin endurspeglar. Þið hafið tekið eftir fornlegum einkennum á málinu. Í handritinu, sem er alls níu blöð, eru ekki bara kaflar úr Physiologus, þar eru líka leifar tveggja predikana og fjallar önnur um regnbogann og tákngildi hans en hin um táknræna merkingu skipsins. Það er þessi táknræna útlegging á náttúrufyrirbærum — dýrum, regnboganum — og síðan skipinu sem við getum sagt að tengi textana saman. En það hangir fleira á spýtunni. Þegar þessi blöð komust í hendur Árna Magnússonar voru þau í félagsskap við handritsbrot sem geymir leifar af fornu helgikvæði, Plácítusdrápu, og fyrir um 20 árum sýndi Guðbjörg Kristjánsdóttir listfræðingur fram á að líklega hefðu Physiologus, predikanirnar og Plácítusdrápa í upphafi öll tilheyrt sama handritinu. Plácítus var rómverskur hershöfðingi sem leið píslarvætti fyrir trú sína eins og segir í latneskri helgisögn sem drápan byggist á. Í sögu hans koma dýr talsvert við sögu því Plácítus verður fyrir vitrun á hjartarveiðum þegar hann sér róðukross milli horna dýrsins. Hann tekur kristna trú ásamt fjölskyldu sinni en þau lenda í ýmsum þrengingum, meðal annars eru börn hans numin á brott af úlfi og ljóni. Við getum leikið okkur að þeirri hugmynd að sá sem fyrir 800 árum las Plácítusdrápu af þessari bók hafi haft stuðning af dýrafræði Physiologusar þegar hann reyndi að ímynda sér þessi framandi dýr. Hugsanlega var þetta handrit á sínum tíma sett saman af einhverjum geistlegum, kannski presti sem hugsaði handritið til eigin nota. Þarna hafði hann fóður í útleggingu ritninganna og gat kennt öðrum hvernig ætti að lesa leiðbeiningar um siðlega breytni út úr fyrirbærum náttúrunnar. Hver þessi skrifari var höfum við enga hugmynd um og við vitum ekki heldur hvort sami einstaklingur skrifaði textann og teiknaði myndirnar.

Þið sjáið af ljósmyndunum hér að ég hef engu logið um ástand handritsins. Það má segja að það sé hálfgert kraftaverk að það hafi varðveist. Og hér er ágætt að staldra við og hugleiða að líklega hafa um níu af hverjum tíu handritum, sem einhvern tíma voru skrifuð, glatast. Hverju eigum við að þakka það að geta enn horft á myndirnar í Physiologus? Sennilega einmitt myndunum sjálfum — og nú kemur að öðrum þætti í sögu þessa handrits og þar komumst við hingað heim í Svarfaðardal.

Árni fékk handritið í upphafi 18. aldar (500 árum eftir að það var skrifað) frá séra Þórði Oddssyni á Völlum. En það var fleira í pakkanum en Physiologus og Plácítusdrápa. Þau blöð voru innan um og saman við annað merkilegt handrit sem kallað hefur verið Íslenska teiknibókin. Teiknibókin er svokölluð fyrirmyndabók eða módelbók, e.k. sjónabók. Hún er handrit með myndum sem útskýra hvernig á að sýna heilaga menn og konur og önnur trúarmótíf á myndum. Svona fyrirmyndabækur voru þarfaþing listamanna, bæði þeirra sem lýstu handrit en líka steinsmiða og útskurðarmeistara. Það sést á Teiknibókinni að hún hefur verið notuð til að taka upp myndir, það hefur verið farið ofan í myndirnar og sumsstaðar hafa útlínur þeirra verið gataðar svo hægt væri sáldra litarefni í gegnum götin til að kópíera myndirnar. Það skemmtilega er, að sömu ummerki má sjá á sumum myndanna í Physiologus. Physiologushandritinu hefur því einhvern tíma verið slegið saman við Teiknibókina og hvorttveggja notað sem fyrirmyndabækur. Og þannig bjargaðist Physiologus í tímans rás — það voru nefnilega not fyrir hann, not sem minnkuðu ekki þótt lúterskur siður tæki við af kaþólskum og sú guðfræði sem texti handritsins hefur að geyma yrði þannig úrelt. Myndirnar stóðu fyrir sínu.

En hvað getum við vitað um feril þessara handrita áður en séra Þórður kom þeim í hendur Árna?

Árni hafði þann sið að skrá hjá sér það sem hann hafði getað spurt uppi um feril þeirra handrita sem honum bárust. Þetta hefur hann að segja um Teiknibókina og Physilogus ásamt Plácítusdrápu:

Komin til mín frá séra Þórði Oddssyni á Völlum í Svarfaðardal en hann fékk af séra Þórarni í Stærra Árskógi. Séra Þórarinn af Illuga Jónssyni frá Urðum, en Illugi af Vestfjörðum einhvers staðar; hvaðan helst, vita menn eigi en Illugi er dauður.

Undanfara þessarar færslu Árna má sjá í bréfaskiptum þeirra séra Þórðar því Árni skrifar klerki 8. maí 1704 og biður hann:

ad inqvirera svo nakvæmlega sem skie kann, hvar Illuge Jonsson feinged mune hafa Billede-bókina og hvert ecki mune uppspyrjast kunna þad sem i hana vantar, framan vid þær dyra myndir sem moralizationenn hia stendur


Þórður svarar og segist því miður ekki geta fullnægt fyrirspyrjanda

þvi ei kann eg uppspyria þau blöd sem vanta fyrer framan þa pergaments druslu sem umtaled. Nær eg heim kom i fyrra sumar, skrifade eg til Illuga sal. Jonssyne og bad hann lata mig vita, hvar feinged hefde greint kver, enn hann giorde mier bod, ad af Vestfiördum til sin borest hefde, og hid sama seiger mier Sr. Þorarenn, ad sier sagt hafe, enn ei hvadan edur ur hvors eigum...

Í manntalinu 1703 kemur fram að Illugi Jónsson er þá til heimilis í Nesi handan Eyjafjarðar (rétt hjá Laufási), sagður 43 ára, hreppstjóri, bóndi og snikkari, vanheill. Kona hans er Þorgerður Sigurðardóttir prestsdóttir frá Þönglabakka, 29 ára og börnin fjögur, tvær stúlkur og tveir drengir. Hagleiksmaðurinn Illugi virðist hafa andast einhvern tíma milli sumranna 1703 og 1704. Eftir hann liggja ýmis útskurðarverk, meðal annars predikunarstólarnir í Laufáskirkju og kirkjunni á Draflastöðum í Fnjóskadal og um Illuga hafa fjallað bæði Hörður Ágústsson í riti sínu um Laufás og Þóra Kristjánsdóttir í sinni merku myndlistarsögu fyrri alda, Mynd á þili.

Illugi Jónsson var af ágætu standi og fjölskylda hans var vensluð og tengd helstu valdaættum landsins. Foreldrar hans voru Jón Illugason á Urðum, sem um tíma var Hólaráðsmaður, og Margrét Guðmundsdóttir sem var dóttir séra Guðmundar Erlendssonar sálmaskálds í Felli í Sléttuhlíð en bróðir Margrétar, semsagt móðurbróðir Illuga, Jón Guðmundsson var prestur, skáld og málari í Felli, svo þar er myndlistartenging. Afi Illuga og alnafni var líka Hólaráðsmaður og hann var giftur Halldóru Skúladóttur sem var systir Þorláks Skúlasonar biskups. Biskup var semsagt ömmubróðir Illuga snikkara.

Þetta er nú allt gott og blessað en hvað með þær upplýsingar að Illugi hafi fengið handritin af Vestfjörðum? Þar verðum við að geta í eyður sögunnar. Einn möguleiki er þessi (og hann hafa þau Hörður og Þóra nefnt): Gísli, sonur Þorláks biskups og frændi Illuga, varð biskup á Hólum eins og kunnugt er. Þriðja og síðasta kona hans var Ragnheiður Jónsdóttir, en hún var dóttir sr. Jóns Arasonar prófasts í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp og konu hans Hólmfríðar Sigurðardóttur. Eftir að Hólmfríður varð ekkja var hún á ýmsum stöðum norðanlands í skjóli barna sinna, á Hólum, á Sökku og í Laufási þar sem hún lést. Hugsast getur að Teiknibókin og Physiologus hafi borist frá Vestfjörðum og hingað á Norðurland gegnum Hólmfríði eða börn hennar og komist í eigu Illuga, kannski sem umbun fyrir útskurðarverk. Ef til vill fékk Illugi handritin beint frá Hólmfríði eða börnum eða í gegnum skyldmenni sín, kannski föður sinn Hólaráðsmanninn eða Jón frænda sinn málara í Sléttuhlíð sem vann ýmis verk fyrir Ragnheiði Jónsdóttur og Gísla biskup. Það má því hugsa sér að Physiologushandritið hafi verið í höndum listamanna og nýtt af þeim allt fram undir aldamótin 1700 og að það sé lykillinn að varðveislu þessa stórmerka og eldforna handrits. Þess má að lokum geta að sérstök sýning um Íslensku teiknibókina verður opnuð í Gerðarsafni í Kópavogi 13. nóvember næstkomandi í umsjá Guðbjargar Kristjánsdóttur listfræðings.