Gistiþjónustan á Vegamótum efst á heimslista farfuglaheimila

Gistiþjónustan á Vegamótum á Dalvík er í efsta sæti yfir bestu farfuglaheimili heimsins samkvæmt heimasíðunni www.hostel.is.

Þeir sem bóka gistingu á farfuglaheimilum gegnum bókunarvél alþjóðasamtaka Farfugla fá tækifæri til þess að gefa heimilunum einkunn eftir að þeir hafa dvalið á viðkomandi farfuglheimili. Alls eru um 2900 farfuglaheimili um allan heim bókanleg á bókunarvélinni. Á innri vef alþjóðasamtakanna er síðan hægt að fylgjast með hvernig einstök farfuglaheimili standa sig í samanburði við önnur heimili.

Á lista yfir bestu farfuglaheimilin sést að Farfuglaheimilið á Dalvík er í efsta sæti heimslistans. Auk þess eru 7 önnur íslensk heimili meðal 50 bestu heimilanna. Listinn er settur saman af einkunnum sem hafa borist núna yfir sumarmánuðina ( maí – dagsins í dag ). Önnur íslensk heimili sem eru inná listanum eru farfuglaheimilið á Vesturgötu í Reykjavík, Broddanes sunnan við Hólmavík, Kópasker, Gaulverjaskóli, Berunes, Reyðarfjörður og Bíldudalur.

Farfuglaheimilið á Dalvík hefur aðeins verið rekið í rúmlega eitt ár og því er þetta glæsilegur árangur hjá þeim Kristínu Aðalheiði Símonardóttur og Bjarna Gunnarssyni sem reka Farfuglaheimilið á Dalvík.

Með því að skoða vef farfuglaheimilanna, www.hostel.is  er hægt að sjá hvaða einkunnir gestir gefa heimilunum. Þar er einnig hægt að lesa umsagnir gesta og eru þær allar á einn veg:

Beautiful house, with a lot of heart and effort put in making it cosy and nice place to stay in. Very nice owner lady. And pretty woolen stutt to buy.

This is one of the best hostels I´ve ever stayed at. It is so beautifully decorated and homely, and the hosts are absolutely lovely. I highly recommend it.