Miðvikudaginn 29. nóvember nk. verður fyrirtækjaþing í Dalvíkurbyggð. Það er atvinnumálanefnd Dalvíkurbyggðar sem boðar til þingsins. Þangað eru boðaðir fulltrúar starfandi fyrirtækja í sveitarfélaginu en fyrr í haust var gerð könnun meðal þeirra og verða niðurstöður hennar m.a. kynntar á þinginu. Á dagskrá þingsins:
1. Mikilvægasta verkefnið fyrir matvælaiðnað í Eyjafirði.
Ásgeir Ívarsson, efnaverkfræðingur kynnir verkefni sem þróast hefur frá matvælaklasa Vaxtarsamnings Eyjafjarðar um förgun lífræns úrgangs.
2. Niðurstöður atvinnulífskönnunar í Dalvíkurbyggð.
Selma Dögg Sigurjónsdóttir, upplýsingafulltrúi, kynnir niðurstöður könnunar sem gerð var meðal fyrirtækja í sveitarfélaginu og unnin var á vegum Dalvíkurbyggðar
3. Hvað er verið að gera í atvinnumálum svæðisins?
Magnús Ásgeirsson hjá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar kynnir AFE og hvaða þjónustu félagið getur veitt fyrirtækjum og frumkvöðlum og tengsl AFE við Vaxtarsamning Eyjafjaðrar.
Að loknum erindum verða umræður um atvinnumál í Dalvíkurbyggð, stöðu þeirra möguleika og framtíð.
4. Kynning á Kalda.
Þegar umræðum lýkur mun Agnes Sigurðardóttir hjá Bruggsmiðjunni á Ársskógsströnd kynna hinn vinsæla Kalda.
Þinginu stjórnar Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð. Þingið verður í Safnaðarheimili Dalvíkurkirkju. Það hefst kl. 16 og reiknað er með að því ljúki um kl. 18.30.