Ferðaþjónustubransinn í Dalvíkurbyggð hefur sjaldan verið blómlegri en hann er í dag. Í gær fór fram uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi og fór partur af henni fram í Dalvíkurbyggð. Heimsóknir voru að þessu sinni á Baccalá bar og Whales á Hauganesi - Bruggsmiðjuna Kalda og Bjórböðin á Árskógssandi og Klængshól í Skíðadal.
Venju samkvæmt veitti Markaðsstofa Norðurlands þrjár viðurkenningar, en þær eru sproti ársins, fyrirtæki ársins og störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi. Að þessu sinni var GeoSea á Húsavík valið sproti ársins, fyrirtækin Ektafiskur og Hvalaskoðun á Hauganesi fengu sameiginlega viðurkenningu fyrir fyrirtæki ársins og að lokum var það Skagfirðingurinn Evelýn Ýr Kuhne sem hlaut viðurkenningu fyrir störf í þágu ferðaþjónustu.
Efnið er samviskusamlega tekið af vef Markaðsstofu Norðurlands, www.nordurland.is.
Viðurkenningin Fyrirtæki ársins er veitt fyrirtæki sem er búið að slíta barnsskónum og hefur skapað sér sterka stöðu á markaði. Fyrirtækið hefur unnið að stöðugri uppbyggingu, vöruþróun og nýsköpun og er með höfuðstöðvar á Norðurlandi. Í ár eru það tvö fyrirtæki sem fá þessa viðurkenningu sameiginlega, það eru Ektafiskur og Hvalaskoðunin á Hauganesi.
Haugnesingar hafa verið öflugir í ferðaþjónustu síðustu ár og á þessu ári hefur verið gefið enn frekar í, með tilkomu heitu pottanna í flæðarmálinu og nýrrar aðstöðu við tjaldsvæðið. Í fyrra fagnaði Hvalaskoðunin 25 ára starfsafmæli, en þetta elsta hvalaskoðunarfyrirtæki landsins gerir út tvo eikarbáta og býður farþegum sínum að kolefnisjafna ferðirnar sínar. Ektafiskur á sér svo enn lengri sögu, en saltfiskverkun þessa fjölskyldufyrirtækis má rekja aftur í fimm ættliði. Ferðamenn geta smakkað á saltfisknum á Baccalá Bar, sem var opnaður fyrir fáeinum árum og hefur notið vinsælda síðan.
Saman hafa þessi tvö fyrirtæki náð að þróa þjónustu sína þannig að Hauganes er orðinn eftirsóknarverður áfangastaður sem vekur athygli og umtal. Þau byggja á traustum grunni, því samfélagi og umhverfi sem er til staðar á Hauganesi en sinna á sama tíma vel þörfum sinna viðskiptavina. Samvinna fyrirtækjanna er til fyrirmyndar og sýnir vel hvaða árangri er hægt að ná með samstarfi og áherslu á að kynna einn heildarpakka þó að um tvö mismunandi fyrirtæki sé að ræða. Til hamingju!
Innilega til hamingju með viðurkenningu Elvar Reykjalín og Whales Hauganes!
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir teknar af þjónustu- og upplýsingafulltrúa í heimsókninni á Hauganes.