Stofnaður hefur verið Fræðslusjóður Dalvíkurbyggðar. Hann er fyrir þau sem ekki eiga rétt í öðrum fræðslusjóðum. Aðdragandinn var sá að í vörslu Dalvíkurbyggðar voru þrír sjóðir með staðfesta skipulagsskrá en það er sérstakt form á styrktarsjóðum, sem eru staðfestir af Dómsmálaráðuneytinu og endurskoðaðir af Ríkisendurskoðun. Þessir þrír sjóðir voru Fóstbræðrasjóður með skipulagsskrá frá 1971, Systkinasjóður með skipulagsskrá frá 1956 og Minningarsjóður Guðjóns Baldvinssonar með skipulagsskrá frá 1933. Þessir sjóðir áttu það sammerkt að hafa verið stofnaðir til að styðja við andlegan og/eða líkamlegan þroska fólks í byggðarlaginu og aukna menntun. Segja má að nútíminn hafi skilið þá eftir þannig að tilgangur þeirra hafi ekki lengur rímað við þann veruleika sem við nú búum við. Sú ákvörðun var því tekin að þessir sjóðir yrðu lagðir niður og að í stað þeirra yrði stofnaður einn sjóður, Fræðslusjóður Dalvíkurbyggðar, sem hefði það hlutverk ,,að veita námsstyrki til þeirra íbúa Dalvíkurbyggðar sem ekki eiga rétt til styrkja úr öðrum fræðslusjóðum."
Undanfarin ár hafa aðilar vinnumarkaðarins gert ýmsa samninga sem lúta að símenntun. Þar má t.d. nefna símenntunarmiðstöðvarnar sem risið hafa um allt land og svo fræðslusjóði, svo sem Landsmennt, Ríkismennt, Sveitamennt og Sjómennt, sem ákveðið hlutfall af tekjum fólks er lagt í m.v. atvinnu þess og vinnuveitanda. Fólk sækir svo í þessa sjóði til að greiða fyrir þau námskeið sem það sækir. Vegna þess hvernig til þessa er stofnað eru þessir sjóðir eingöngu fyrir þau sem hafa öðlast rétt með þátttöku sinni á vinnumarkaði. Öryrkjar eða þau sem einhverra hluta vegna eru ekki á vinnumarkaði, eiga þá ekki í neitt hús að venda með styrk ef þau hafa t.d. áhuga á þátttöku í námskeiðum sem verið er að halda í námsverinu. Það var því niðurstaða bæjaryfirvalda að beina stuðningi úr þessum sjóði til þeirra sem ekki eiga rétt til styrkja úr öðrum sjóðum og fellur það prýðilega að upphaflegum tilgangi sjóðanna þriggja.
Stofnfé sjóðsins eru kr. 1.304.465 og má árlega úthluta styrkjum sem nema vöxtum af höfuðstólnum sem skal ávaxta í Sparisjóði Svarfdæla á hæstu mögulegu vöxtum. Stjórn sjóðsins mun svo auglýsa eftir umsóknum eftir því sem hún telur nauðsynlegt. Á síðasta fundi bæjarstjórnar fyrir sumarleyfi voru þær Kristrún Sigurðardóttir, Guðlaug Björnsdóttir og Guðný Rut Sverrisdóttir kosnar í stjórn Fræðslusjóðs Dalvíkurbyggðar.
Það er von bæjaryfirvalda að með þessum sjóði eigi allir kost á stuðningi við símenntun sína og að hann geti orðið þeim sem styrkja njóta til lífsfyllingar og ánægju.