Fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar 2015-2018

Seinni umræða um fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar fyrir árin 2015 – 2018 fór fram í sveitarstjórn þann 25.nóvember sl. Fjárhagsáætlunin var samþykkt samhljóða með 7 atkvæðum.

Útsvarsprósenta er óbreytt á milli ára og skatttekjur Dalvíkurbyggðar hækka um tæpar 50 m.kr á milli áranna 2014 og 2015 og gert er ráð fyrir 9 m.kr hækkun á framlögum frá Jöfnunarsjóði. Heildartekjur Dalvíkurbyggðar eru þannig áætlaðar um 1,8 milljarður sem er um 65 m.kr hækkun tekna samstæðunnar á milli ára.

Helstu niðurstöðutölur fjárhagsáætlunar Dalvíkurbyggðar árið 2015 við seinni umræðu eru þær að aðalsjóður er rekinn með hagnaði upp á rúmar 9 m.kr. og A-hlutinn er rekinn með hagnaði upp á 30 m.kr. A- og B- hluti saman verða reknir með tæplega 70 m.kr hagnaði árið 2015 ef áætlun gengur eftir. Bæði A- og B-hluti verða reknir með hagnaði árin 2016 – 2018.

Veltufé frá rekstri er áætlað árið 2015 um 263 m.kr., veltufjárhlutfall verður 1,12 og eiginfjárhlutfall verður 0,58.

Helstu framkvæmdir næstu ára eru:
• Viðbygging við leikskólann Krílakot, árin 2015 og 2016, alls um kr. 167.664.000 með búnaði.
• Viðhald og endurbætur á sundlaug Íþróttamiðstöðvar , árin 2015 og 2017, alls um kr. 115.000.000.
• Gatnagerðaframkvæmdir 2015-2018, alls um kr. 105.080.000.
• Framkvæmdir og eignfærðar fjárfestingar alls árin 2015-2018 eru áætlaðar kr. 698.259.000. Lántaka sömu ára er áætluð kr. 145.000.000.

Skuldahlutfall Dalvíkurbyggðar mun því lækka úr rúmum 87% árið 2014 í 85% árið 2015. Ef áætlanir þriggja ára áætlunar til 2018 ganga eftir verður skuldahlutfallið komið í 75% og sveitarfélagið komið í öfundsverða stöðu til framtíðar. Að óbreyttu þá ætti að vera auðvelt að greiða upp á næsta kjörtímabili allar vaxtaberandi skuldir. Slíkt hefði í för með sér stórbætta afkomu sveitarfélagsins og miklu meiri möguleika til fjárfestinga og lækkunar á álögum á íbúana.


Nánari upplýsingar veitir Bjarni Th. Bjarnason, sveitarstjóri, í síma 460 4902 eða 8995841 eða í tölvupósti: bjarnith@dalvikurbyggd.is

Fjárhagsáætlun DAlvíkurbyggðar í heild sinni er kominn á heimasíðuna.