Bæjarstjórn Dalvíkurbyggðar tók fjárhagsáætlun fyrir árið 2010 til fyrri umræðu á fundi sínum þann 8. desember. Bæjarstjórnin stendur öll að áætluninni.
Traustur rekstur og miklar framkvæmdir á árinu einkenna áætlunina.
Helstu niðurstöður eru þær að A hlutinn skilar afgangi uppá ríflega 114 milljónir króna og A og B hlutinn samanlagt skila afgangi uppá ríflega 95 m kr. Veltufjárhlutfall er 1,23 og handbært fé frá reksti er áætlað um 281 m.kr.
Fjárfestingar eru um 324 m kr. Þar bera hæst lok framkvæmda við nýja íþróttamiðstöð og búnaðarkaup vegna hennar, samtals uppá 284 m kr. Þá er nokkru fé varið til gatna og gangstétta og ýmissa umhverfisverkefna. Fyrirtæki sveitarfélagins eru einnig í framkvæmdum s.s. Vatnsveita og Hafnasjóður. Auk þess verður unnið að ýmsum viðhaldsverkefnum.
Tekjuáætlun A hluta byggir á því að útsvar og fasteignaskattar skili sömu krónutölu og á árinu 2009 en að minna fáist úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Skatttekjur eru því 19 m kr. lægri en á árinu 2009. Gjaldskrár breytast lítið, leikskólagjöld eru óbreytt annað árið í röð.
Á árinu er fyrirhugað að taka lán uppá 105 m kr. og er það eina lánið sem tekið er vegna byggingar íþróttamiðstöðvar en heildarkostnaður vegna hennar verður á árinu 2010 orðinn um 544 m kr. Eigið fé sveitarfélagsins vex á árinu úr 1.214 m kr. í árslok 2009 í 1.309 m kr. í árslok 2010 eða um 95 m kr. Á sama tíma aukast skuldir sveitarfélagsins við lánastofnanir um 56,5 m kr. Skuldir við lánastofnanir eru áætlaðar um 1.078 m.kr., þar af eru um 409 m.kr. vegna félagslegra íbúða.
Sveitarfélagið Dalvíkurbyggð sinnir vel sínum lögboðnu verkefnum og stendur undir fjölbreyttri og góðri þjónustu við íbúana. Aðhald hefur verið í rekstri og starfsfólk sveitarfélagsins hefur staðið sig frábærilega við að skila góðum rekstri sinna stofnana. Það skilar sér áfram í góðum rekstri sveitarfélagsins.
Nánari upplýsingar gefur Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð s. 460 4902 eða 862 1460