Fiskidagurinn mikli hefur frá upphafi heiðrað einstaklinga eða hópa fólks sem hafa verið þátttakendur í sjávarútvegi á Dalvík. Fiskidagurinn mikli 2007 heiðraði fiskvinnslukonuna Ernu Hallgrímsdóttur. Erna var sérstaklega heiðruð fyrir langan starfsaldur við fiskvinnslu en jafnframt kom fram að hún væri fulltrúi hinna fjölmörgu fiskvinnslukvenna sem á síðustu öld unnu við misjafnar aðstæður.
Við þetta tækifæri benti Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð, m.a. á að Dalvík væri fyrst og fremst fiskvinnslubær, mjög hátt hlutfall fólks starfaði við fiskvinnslu og að meirihluti þeirra væru konur. Margar konur á Íslandi hafa unnið tímabundið í fiskvinnslu. En býsna margar, einkum úti um landið, á stöðum eins og Dalvík, hafa líka haft fiskvinnslu sem aðalstarf, gjarnan með barnauppeldi og húsmóðurstörfum. Sú sem Fiskidagurinn mikli heiðraði í ár er einmitt ein slík, en Erna starfaði utan heimilis við fiskvinnslu auk þess að sinna stóru heimili með óvenju stórum barnahópi.
Svanfríður gat þess líka í ræðu sinni að konur hafi alltaf verið virkir þátttakendur í atvinnulífi þjóðarinnar, bæði til sjávar og sveita. Framan af síðustu öld voru konur t.d. mikilvægur vinnukraftur við verkun á saltfiski. Við síldarsöltun, sem varð mikilvæg atvinnugrein snemma á síðustu öld, voru konur líka ómissandi vinnukraftur. Fiskidagurinn mikli hefur þegar heiðrað þau sem gerðu Dalvík á sínum tíma að einum helsta síldarsöltunarstað á landinu.
Í vitund þjóðarinnar er fiskvinnslukonan þó líklega helst sú sem vinnur í frystihúsi eða því sem stundum er kölluð hefðbundin fiskvinnsla eins og algengast er hér í dag. Strax og frystihúsin tóku að ryðja sér til rúms á fyrri hluta síðust aldar urðu þau stórir kvennavinnustaðir þar sem konur sáu um snyrtingu og pökkun afurðanna. Snyrtingin er enn í dag mannfrekasta starfið. Hún er hjartað í fiskvinnslunni og þar eru konurnar.
Þess vegna heiðrar Fiskidagurinn mikli fiskvinnslukonu.