Á síðasta fundi bæjarstjórnar Dalvíkurbyggðar þann 2. október sl. tók Svanfríður Inga Jónasdóttir, bæjarstjóri, til máls og gerði grein fyrir helstu forsendum og niðurstöðum enðurskoðaðrar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2007. Endurskoðuð fjárhagsáætlun hefur nú verið sett hér á heimasíðuna, til vinstri, undir stjórnsýslu fyrir þá sem vilja kynna sér helstu lykiltölur sveitarfélagsins. Einnig er þar að finna framsögu bæjarstjóra í fullri lengd.
Hér eru nokkrir punktar úr framsögu bæjarstjóra:
- Helstu breytingar eru þær að áætlað er að tekjur í málaflokki 00 hækki um 38.214 millj. Þar af hækki skatttekjur um 19.503 millj., framlög frá jöfnunarsjóði um 20,485 millj. en lóðarleiga lækkar um 1,8 m.kr. frá gildandi fjárhagsáætlun.
- Af framkvæmdum ársins er það að segja að hitaveitu- og vatnsveituframkvæmdir eru nú á síðasta snúningi og eru litlar breytingar á áætlunum þeirra vegna. Miklar húsbyggingar virðast hinsvegar skila sveitarfélaginu meiri tekjum en áætlað var, þannig að gatnagerðaframkvæmdir nettó (gjöld - tekjur) eru um 14,8 m.kr. tekjur umfram gjöld.
- Við samþykkt fjárhagsáætlunar fyrir 2007 var gert ráð fyrir því að aðalsjóður mundi skila afgangi uppá rúmlega 40 millj. króna. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun verður sú tala ríflega 52 milljónir. Þá hafði verið gert ráð fyrir því að afgangur af samanteknum A og B hluta yrði um 33 milljónir kr. en endurskoðuð áætlun gerir ráð fyrir ríflega 46 milljónum.
- Að öllu þessu samandregnu virðist fjárhagsstaða sveitarfélagsins vera að styrkjast. Á móti nýrri lántöku greiðast önnur langtímalán niður, útsvarstekjur eru að aukast og nýbyggingar og byggingaáform skila okkur hærri tekjum á meðan tekist hefur að halda útgjöldum sæmilega stöðugum; a.m.k. þeim sem við höfum vald á. Veltufjárhlutfall er 1,41 eða það sama og í upprunalegri áætlun og gert er ráð fyrir um 144 milljónum í handbært fé í árslok sem er aðeins hærra en í upprunalegri áætlun.