Unnið er að endurnýjun leiksvæðisins á Krílakoti þessa dagana. Leiksvæðið verður stækkað til austurs og girt upp á nýtt auk þess sem settir verða upp ljósastaurar og ljósapollar á svæðinu.
Ungbarnasvæðið, næst húsinu, er endurnýjað og þar kemur nýr sandkassi, ungbarnaróla og nýtt klifurtæki sem hentar þeim yngstu. Þetta svæði verður girt af með lágri timburgirðingu. Nýr malbikaður hjólastígur sem tengist inn á núverandi stíg mun umkringja nýtt leiksvæði með sandkassa, klifurgrind og trampólínum. Við hlið stígsins kemur líka fótboltavöllur með gerfigrasi og litlum mörkum. Svæðið þar sem lækurinn og hólarnir eru verður fyrir minnstu raski, en þar er samt sem áður gert ráð fyrir nýjum leiktækjum, kofa, brú á milli hóla og röri í geng um hól.
Þetta er stór og mikil framkvæmd sem tekur tíma að vinna. Verkið hófst um leið og Krílakot lauk störfum í júlí og áætluð verklok eru 1. nóvember nk. Verktakinn sem vinnur verkið fyrir okkur er Steypustöðin Dalvík ehf.