Landsnet vinnur að undirbúningi lagningar Dalvíkurlínu 2, þ.e. 66 kV jarðstrengs á milli Akureyrar og Dalvíkur. Framkvæmdin er hluti af endurnýjunaráætlun Landsnets, en ákveðið var að flýta framkvæmdum í kjölfar truflana af völdum óveðurs veturinn 2019-2020.
Sveitarfélögin Akureyrarbær, Hörgársveit og Dalvíkurbyggð hafa ákveðið að hefja vinnu við breytingu á aðalskipulagi vegna Dalvíkurlínu 2 sem mun liggja við vestanverðan Eyjafjörð, þ.e. milli Akureyrar og Dalvíkur. Í Dalvíkurbyggð er jafnframt unnið að heildarendurskoðun aðalskipulags og er ráðgert að línan verði einnig tekin inn í þá vinnu.
Ákveðið var að vinna sameiginlega skipulags- og matslýsingu fyrir Akureyrarbæ, Hörgársveit og Dalvíkurbyggð. Hún er unnin í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021. Í vinnuferlinu verða settar fram þrjár aðskildar aðalskipulagsbreytingar, þ.e. breyting á Aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030, Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012-2024 og Aðalskipulagi Dalvíkurbyggðar 2008-2020.
Samhliða aðalskipulagsbreytingunum er unnin tilkynning til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdarinnar.
Hér má sjá skipulags- og matslýsingu fyrir Dalvíkurlínu 2