Niðjar Kristins Jónssonar, Dalsmynni, komu saman í safnaðarheimili Dalvíkurkirkju laugardaginn 11. ágúst sl. Þar færðu börn Guðjóns M. Kristinssonar, sem var sonur Kristins, Dalvíkurbyggð málverk að gjöf til minningar um föður sinn. Málverkið málaði Guðjón 1979 en það er af byggðarlaginu eins og byggðin var um 1920 og er málað eftir heimildum m.a. frá Agli Júlíussyni og Júlíusi Halldórssyni, teikningum og ljósmyndum.
Guðjón var fæddur á Dalvík 1920 og ólst þar upp, sonur Elínar S Þorsteinsdóttur og Kristins Jónssonar. Hann lærði húsamálun í Iðnskólanum í Reykjavík, en flutti aftur til Dalvíkur að námi loknu og bjó þar í nokkur ár. Hann varð seinna bílamálari og rak málningarverkstæði í Kópavogi um árabil ásamt syni sínum, Kristni. Guðjón lést árið 1998.Guðjón málaði olíumyndir í frístundum frá 17 ára aldri og liggja eftir hann mörg verk. Þess má geta að Guðjón málaði myndina af Dalvík sem er á kápu fyrsta heftis af Sögu Dalvíkur.
Bæjarstjóri tók við málverkinu fyrir hönd Dalvíkurbyggðar og á meðfylgjandi mynd má sjá Svanfríði Jónasdóttur teka við málverkinu fyrir hönd Dalvíkurbyggðar, en það voru Guðjón Heiðar og Viktor Orri, sonarsynir Guðjóns, sem afhentu gjöfina.