Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar hefja í dag nýtt fjáröflunar- og endurvinnsluátak undir heitinu „Svaraðu kallinu!“
Átakið felst í því að björgunarsveitir safna gömlum gsm símum en ljóst er að slíkir símar leynast víða í skúffum og skápum landsmanna. Björgunarsveitirnar koma símunum áfram til þýska fyrirtækisins Greener Solutions sem sérhæfir sig í endurvinnslu og endurnýtingu á gsm símum, og fá greitt fyrir hvern síma, samkvæmt tilkynningu.
Greener Solutions flokkar símana, hluti þeirra fer í endurvinnslu þar sem ýmsir málmar, svo sem gull og palladium, og plastið er endurunnið. Þeir símar sem eru nothæfir eru gerðir upp og sendir til þróunarlanda þar sem þeir eru seldir á vægu verði.
Björgunarsveitin á Dalvík tekur að sjálfsögðu þátt í þessu átaki og mun taka á móti notuðum, ónýtum og gömlum GSM símum til endurvinnslu á meðan flugeldasalan er í gangi en hún hefst 28. desember. Hægt verður að setja GSM símana í stóran kassa sem verður á flugeldasölusvæðinu.
Nú er því lag að losa sig við alla ónýtu og gömlu símana og setja í þessa kassa og styrkja um leið frábært málefni.