Hr. Panda bíður spenntur eftir börnum í bangsaleiðangri!
Settur hefur verið að stað leikur á Dalvík fyrir fjölskyldur sem gerir gönguferðir um bæinn að gönguferðum "með markmiði". Það var Lilja Björk Reynisdóttir sem fyrst færði hugmyndina hingað en leikurinn hefur fengið góðar viðtökur í Laugarneshverfi í Reykjavík. Leikurinn er á þá leið að allir þeir sem vilja taka þátt stilla bangsa/böngsum út í glugga sem sýnilegur er frá götunni. Þannig geta fjölskyldur fengið sér gönguferð um bæinn og fundið bangsa á leiðinni.
Viðtökurnar á Dalvík hafa verið góðar en það er einmitt í svona ástandi sem gott er að breyta aðeins til og finna eitthvað nýtt á dagskrána. Þetta er svo skemmtileg hugmynd að ég fór og myndaði nokkur hús sem eru með sýnilega bangsa. Hlakka til að fara í gönguferð um bæinn með börnunum og telja bangsa! Svo er þetta fullkomin afþreying í miðju samkomubanni.
Við hvetjum íbúa í öllum byggðarkjörnum til að setja bangsa út í glugga svo alls staðar sé hægt að fara í bangsaleiðangur.
Njótið göngunnar!