Ávarp sveitarstjóra við opnun nýja fiskvinnsluhúss Samherja

Ávarp sveitarstjóra við opnun nýja fiskvinnsluhúss Samherja

Nýtt fiskvinnsluhús Samherja var formlega opnað í gær, miðvikudaginn 13. ágúst, við hátíðlega athöfn. Neðar í fréttinni má finna ávarp sveitarstjóra frá opnuninni í gær. 

Fyrsta skóflustungan að nýju fiskvinnsluhúsi Samherja á Dalvík þann 21. júní 2018, en það voru leikskólabörn af leikskólanum Krílakoti á Dalvík sem áttu heiðurinn að skóflustungunni ásamt starfsfólki Samherja þeim Sigurði Jörgen Óskarssyni vinnslustjóra á Dalvík, Gesti Geirssyni framkvæmdastjóra landvinnslu og Ragnheiði Rut Friðgeirsdóttur gæðastjóra á Dalvík.

Það eru AVH arkitektar á Akureyri sem eru hönnuðir nýja hússins.

Fyrsta skóflustungan að nýju fiskvinnsluhúsi orðin að veruleika

"Í dag er mikill gleðidagur hér í Dalvíkurbyggð þegar nýtt fiskvinnsluhús Samherja er formlega tekið í notkun. Mikil spenna hefur ríkt í sveitarfélaginu fyrir þessum degi og það er gaman að upplifa það að þessi stund er loksins runnin upp.

Þegar Samherji ákvað að byggja upp framtíðarfiskvinnslu á Dalvík hófst sveitarfélagið handa við að byggja upp aðstöðu sem myndi þjóna starfseminni sem hið nýja hús myndi krefjast. Fyrir utan landfyllingu og allt sem því fylgdi var byggður nýr hafnarkantur, Austurgarður, og aðstaðan gerð eins og best verður á kosið. Það er von okkar að nýja aðstaðan muni nýtast vel í framtíðinni til löndunar og umsvifa við nýja fiskvinnsluhúsið. Starfsmenn Dalvíkurbyggðar sem hafa komið að uppbyggingunni þakka fyrir góða samvinnu og starfsmenn Dalvíkurhafnar hlakka til að fá að þjónusta fyrirtækið á nýjum stað.

Nýja fiskvinnsluhúsið er vel heppnuð bygging og rós í hnappagat hönnuðarins. Þrátt fyrir stærð fellur það vel inn í umhverfið og það er eiginlega ekki fyrr en farið er upp í fjall og horft yfir Dalvík sem sést hversu stór byggingin er í raun.

Samherji er rótgróið fyrirtæki í Dalvíkurbyggð og þegar horft er yfir starfsmannahópinn sést að í hópi starfsmanna eru aðilar sem hafa unnið hjá fyrirtækinu frá upphafi. Einnig eru nokkrar fjölskyldur þar sem foreldrar, börn og tengdir aðilar hafa unnið hjá fyrirtækinu til lengri eða skemmri tíma. Þetta ber þess vitni að það er gott að vinna hjá Samherja og að fyrirtækið hugsar vel um sitt starfsfólk enda mannauður fyrirtækisins mikill.

Þegar hugsað er til starfsfólksins er sérstakt gleðiefni að fylgjast með flutningi fyrirtækisins úr gamla frystihúsinu í nýja fiskvinnsluhúsið. Hversu magnað er að fara úr húsi með mörgum viðbyggingum, rangölum, stigum og skúmaskotum í þá höll sem hið nýja hús er. Þar sem er nóg pláss, hátt til lofts, bjart og vítt til veggja. Þar sem hugað er að hljóðvist og metnaður lagður í aðbúnað starfsfólks. Í hús sem er hannað frá upphafi til að hýsa framleiðslu á heimsmælikvarða. Þar sem beitt verður allri nýjustu tækni og tækni framtíðarinnar í fiskvinnslu heldur áfram að þróast í höndum þeirra starfsmanna sem vinna verkin. Þetta er að gerast hérna í Dalvíkurbyggð í okkar 1900 manna samfélagi, núna, og þetta er sannarlega stór stund og við erum glöð og stolt.

Ég flyt hlýjar kveðjur frá Dalvíkurbyggð til stjórnar og starfsfólks Samherja á þessum merku tímamótum. Megi glæst framtíð, farsæld, heill og hamingja fylgja nýja fiskvinnsluhúsinu okkar um ókomna tíð."


Nýtt fiskvinnsluhús Samherja - mynd frá Fiskifréttum