Kjöri á Íþróttamanni Dalvíkurbyggðar var lýst við hátíðlega athöfn í Bergi menningarhúsi í dag. Alls voru tilnefnir fimm efnilegar íþróttamenn fyrir jafn mörg félög og eru þeir:
Andrea Björk Birkisdóttir, Skíðafélagi Dalvíkur
Arnór Snær Guðmundsson, Golfklúbbnum Hamar
Hjörleifur Helgi Sveinbjarnarson, Sundfélaginu Rán
Svavar Örn Hreiðarsson, Hestamannafélaginu Hring
Viktor Hugi Júlíusson, Frjálsíþróttadeild UMFS
Auk þess að veita ofangreindum aðilum verðlaun fyrir tilnefningar sínar voru veittir styrkir úr afreks- og styrktarsjóði Dalvíkurbyggðar til efnilegra íþróttmanna og félaga í sveitarfélaginu.
Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2016
Arnór Snær Guðmundsson, Golfklúbbnum Hamar, hefur verið valinn Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2016.
Arnór Snær er einn af efnilegri kylfingum landsins. Árið 2016 varð hann íslandsmeistari golfklúbba í flokki 18 ára og yngri með sameiginlegri sveit GHD og GA, var valinn í landslið 18 ára og yngri sem tók þátt í Evrópumóti piltalandsliða og varð klúbbmeistari Golfklúbbsins Hamars á Dalvík. Að auki vann hann fjölmarga aðra sigra á golfvellinum og hefur sýnt og sannað að hann er í fremstu röð í sínum aldursflokki.
Arnór Snær er metnaðargjarn ungur kylfingur sem með reglusemi, einbeitingu og skýrum markmiðum hefur náð frábærum árangri í golfinu.
Dalvíkurbyggð óskar Arnóri Snæ til hamingju með titilinn Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar árið 2016.