Síðastliðinn laugardag fóru fram kosningar um sameiningu sveitarfélaga við Eyjafjörð. Sameining var aðeins samþykkt í tveimur sveitarfélögum af þeim níu sem gengu til kosninga og því er ljóst að ekki verður kosið aftur um sameiningu sveitarfélaga í Eyjafirði.
Alls sögðu 3.377 þeirra sem tóku þátt í kosningunni nei, eða 58,3%. Já sögðu 2.318 eða 40% þeirra sem tóku þátt en auðir og ógildir seðlar voru 95 eða 1,7%. Alls tóku 5.790 manns þátt í kosningunni en 16.674 voru á kjörskrá og var kosningaþátttaka því aðeins 34,7%.
Í Dalvíkurbyggð var kosningaþátttaka mjög góð eða 64,9% þeirra sem voru á kjörskrá. Þar af sögðu 63% nei og 35,4% já. Það er því ljóst að afstaða íbúa sveitarfélagsins til sameiningar allra sveitarfélaga við Eyjafjörð er mjög skýr.
Nánari upplýsingar um kosningatölur er að finna á dagur.net og á síðunni eyfirdingar.is sem var sett upp sem upplýsingasíða vegna sameiningakosninganna.