Hátíðardagskrá í Dalvíkurbyggð hófst á 17. júní hlaupi frjálsíþróttadeildar UMFS. Fjölmargir hlauparar á öllum aldri tóku þátt í hlaupinu að þessu sinni. Veðurblíðan var þvílík að færa þurfti andlitsmálun inn í andyri Íþróttamiðstöðvar þar sem litir láku til í hitanum. Slökkvilið fór fyrir skrúðgöngu frá Íþróttamiðstöð og að kirkju þar sem hátíðarstund fór fram. Fjallkona Dalvíkurbyggðar 2012 var Þorbjörg Viðarsdóttir og flutti hún ljóðið Ísland eftir Örn Arnarson. Hátíðarræðu flutti Svanfríður bæjarstjóri og lauk hátíðarstund í kirkjunni á skemmtilegu tónlistaratriði frá Fjallkonunum Valdísi, Jónínu og Ásu við undirleik Elmars.
Að vanda flaug Elvar yfir með karamellur og var hasarinn mikill á meðan regninu stóð yfir. Björgunarsveitin bauð uppá vatnsrennibraut sem sló í gegn í blíðunnu og svo mikið var álagið að gat kom á dúkinn. Knattþrautir Dalvík / Reynis voru vel sóttar sem og teyming á hestum sem ætlaði engan endi að taka þar sem vinsældir hestana voru miklar.
Sundlaugarfjör fór einstaklega vel fram þar sem fjölmargir bæjarbúar skemmtu sér í sundlauginni. Hápunkturinn í sundlaugafjörinu var þegar Regína Óska og undirleikari komu fram og var tekið vel undir í lögunum hennar.
Nokkrar ábendingar hafa komið fram um það sem betur mætti fara t.d. hvernig skrúðgangan gæti verið líflegri með trommutakti eða góðri tónlist og hljóðnema hafi vantað við hátíðarræðu. Til að gera 17. júní í Dalvíkurbyggð að enn betri atburði þá er öllum frjálst að koma fram með athugasemdir á Árna Jónsson íþrótta- og æskulýðsfulltrúa með tölvupósti arni@dalvikurbyggd.is eða í síma 4904913. Gaman væri að heyra bæði það sem vel var gert og það sem betur mætti fara.
Kær kveðja,
Árni Jónsson
Íþrótta- og æskulýðsfulltrúi.