Þriðjudaginn 13. nóvember sl. hélt Bandalag Íslenskra skáta kynningu í Dalvíkurskóla á skátastarfi með það fyrir augum að hvetja til þess að skátastarf verði endurvakið í Dalvíkurbyggð en það hefur legið niðri um skeið. Auglýsing var send á tæplega 180 heimili auk þess að hengdar voru upp auglýsingar. Fáir sáu sér fært að mæta á fundinn en aðeins 8 einstaklingar mættu til að kynna sér það sem félagsmálastjóri BÍS, Aðalsteinn Þorvaldsson, hafði fram að færa. Bandalaginu er greinilega mikið í mun að koma hér á skátastarfi á ný en greinilegt er að það verður erfitt, fáir ef þá nokkrir eru tilbúnir að taka að sér að sjá um starfið.
Ýmislegt er að breytast í skátastarfi frá því sem var í gamla daga og Aðalsteinn lagði áherslu á að það væri um að gera að fara hægt og rólega af stað að nýju og gefa sér góðan tíma. Um að gera væri að sníða dagskrá og tímasetningar eftir því sem þyrfti til að starfið gæti dafnað, ekki þyrfti að halda sig við fastar tímasetningar eða niðurneglda viðburði alla daga. Í kjölfar þessa fundar er boðað til námskeiðs um nýja skátadagskrá að Hömrum á Akureyri fyrir þá sem hafa áhuga á skátastarfi, hvort heldur sem er að sjá um starfið eða að vera í nokkurs konar bakvarðarsveit sem styður við starfið með einhverjum hætti. Námskeiðið verður haldið á Hömrum laugardaginn 24. nóvember á milli kl. 10 og 17. Námskeiðið er ætlað félagsforingjum, stjórnum, starfsmönnum, sveitarforingjum, aðstoðarsveitarforingjum og áhugasömu fólki. Hádegismatur er í boði BÍS. Ekkert námskeiðsgjald er á námskeiðið. Á námskeiðinu er farið hugmyndafræðilegan grunn skátahreyfingarinnar, aðferðafræði, nýju skátadagskránna og notkun hennar í sveitarstarfi. Umsjón með námskeiði: Margrét Vala Gylfadóttir.Skátafélagið Klakkur býður upp á skála sem verður opinn frá föstudagskvöldi fram á sunnudag fyrir þá þátttakendur sem þess óska.