Síðastliðinn föstudag var hitaveitu formlega hleypt á Svarfaðardalinn og af því tilefni bauð Hitaveita Dalvíkur til athafnar að Rimum í Svarfaðardal. Öllum íbúum svetiarfélagsins var boðið til veislunnar og mættu yfir 100 manns og var það Kvenfélagið Tilraun sem sá um veitingarnar. Þorsteinn Björnsson sviðstjóri umhverfis- og tæknisviðs Dalvíkurbyggðar bauð gesti velkomna og sagði frá framkvæmdunum en hann hafði jafnfram yfirumsjón með þeim. Bjarni Jóhann Valdimarsson formaður umhverfisráðs tók einnig til máls og sagði frá undirbúningi og aðdraganda þessara framkvæmda og var það svo Svanfríður Jónasdóttir bæjarstjóri sem ræsti dælur kerfisins með formlegum hætti en á meðfylgjandi mynd má sjá Svanfríði og Þorstein ræsa dælurnar. Svanfríður þakkaði öllum þeim sem komið hafa að þessum framkvæmdum og færði Þorsteini blómvönd í sem þakklætisvott fyrir vel unnin störf í tengslum við þessar framkvæmdir.