Norræni skjaladagurinn er haldinn þann 10. nóvember 2007. Þá vekja skjalasöfn á Norðurlöndum athygli á skjölum sem varpa ljósi á sögu einstaklinga. Þema skjaladagsins í ár fjallar um einstaklinga í skjalasöfnum. Í Skandinavíu heitir það „mennesket i arkivet" en „mannlíf í skjölum" er íslenska útgáfan. Markmiðið er að vekja áhuga á rannsóknum á persónusögu, beina athygli að heimildum sem koma að gagni við slíkar rannsóknir og þeim skjalasöfnum sem varðveita þau gögn. Upplýsingar um persónuheimildir munu geta komið mörgum að góðum notum, bæði almenningi og fræðimönnum, og beint sjónum að þeim rannsóknarmöguleikum sem felast í skjölum í vörslu skjalasafna landsins.
Meðal þeirra heimilda, sem nú birtast á vefsíðunni http://www.skjaladagur.is/ eru heimildir um farskóla í Svarfaðardal frá Héraðsskjalasafni Svarfdæla. Einnig er þar að finna ýmsar forvitnilegar heimildir, svo sem fermingarskýrslur, brunabótavirðingar og margt fleira.