Fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2025 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2025-2028

Fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2025 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2025-2028

Fjárhagsáætlun Dalvíkurbyggðar fyrir árið 2025 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2025-2028 var samþykkt einróma á fundi sveitarstjórnar þann 19.nóvember sl.

Það er alltaf léttir að ljúka fjárhagsáætlunargerð ár hvert og því vil ég þakka öllum þeim sem komu að vinnunni með einum eða öðrum hætti, starfsfólki, stjórnendum, sviðsstjórum og að ógleymdum kjörnum fulltrúum. Það er til mikillar fyrirmyndar að vinnan hefur einkennst af metnaði fyrir verkefninu þar sem markmið allra er að reka öflugt sveitarfélag sem veitir íbúum sínum góða þjónustu. Það ber að þakka að fjárhagsáætlun var samþykkt samhljóða með sjö greiddum atkvæðum og var unnin í mikilli einingu kjörinna fulltrúa.

Fjárhagsáætlun hvers árs er leiðarvísir okkar sem berum ábyrgð á rekstri sveitarfélagsins hún segir til um hvað við höfum til umráða í hverjum málaflokki. Það er mikilvægt að við ástundum ábyrg vinnubrögð höfum eftirlit með framkvæmd fjárhagsáætlunar og ekki síst bregðumst við ef eitthvað óvænt kemur upp í rekstri sveitarfélagsins.

Áætlunin er unnin af vandvirkni, allur ferill vinnunnar er skýr sem og hlutverk hvers og eins, ásamt því mikilvægasta að hún endurspeglar ábyrgan rekstur. Handbært fé frá rekstri er jákvætt um tæpar 500 milljónir út áætlunartímabilið, þrátt fyrir það myndast lánsþörf fyrir áætluðum framkvæmdum á næsta og þarnæsta ári.

Til þess að jákvæð þróun sveitarfélagsins haldi áfram skiptir forgangsröðun í þágu skipulagsmála og uppbyggingu innviða sem og góðrar þjónustu við íbúa lykilhlutverki.

Hér að neðan má finna hlekk af framsögu minni við síðari umræðu við fjárhagsáætlun 2025 og þriggja ára áætlun 2026-2028.

Fjárhagsáætlun 2025, framsaga og þriggja ára áætlun 2026-2028.

Að lokum langar mig langar að þakka starfsfólki Dalvíkurbyggðar sveitarstjórn og öllu því fólki sem starfar í nefndum og ráðum á vegum sveitarfélagsins fyrir óeigingjart starf í þágu sveitarfélagsins.

Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, sveitarstjóri