Í tilefni að grasrótardegi UEFA þann 16.maí ákvað stjórn Barna-og unglingaráðs fótbolta hjá UMFS á Dalvík að færa Kinga Wozniel þakkir fyrir frábær sjálfboðaliðastörf fyrir félagið. Kinga, sem er 16 ára pólsk stelpa, hefur undanfarið ár unnið óeigingjarnt starf í þágu kvennaknattspyrnunnar á Dalvík og verið þjálfaranum stoð og stytta á æfingum sem og í keppnisferðum. Þá hefur hún verið dugleg við að aðstoða samlanda sína við að komast inn í knattspyrnulífið á staðnum og nú stunda fjölmörg pólsk börn fótboltaæfingar hjá UMFS á Dalvík.
Í þakklætisskyni fyrir vel unnin störf færði stjórn Barna-og unglingaráðs Kinga keppnisgalla Dalvíkur og hlífðargalla félagsins að gjöf. Kinga er sjálf mjög efnileg knattspyrnustelpa en hefur ekki tækifæri til að spila á Dalvík þar sem ekkert kvennalið er í eldri flokkum. Vonandi fær hún tækifæri til að nýta hæfileika sína í framtíðinni en á meðan eru störf hennar í þágu fótboltans á Dalvík vel þegin.