Rauðhetta í kirkjubrekkunni

Laugardaginn 20. júní mun Leikhópurinn Lotta koma til Dalvíkur með nýjustu leiksýningu sína Rauðhettu. Sýnt verður á túninu fyrir neðan Dalvíkurkirkju og hefst sýningin klukkan 11:00.

Sýnt er utandyra og er því um að gera að klæða sig eftir veðri og taka með sér teppi til að sitja á og hlýja sér ef kalt er í veðri.

Verkið skirfaði Húsvíkingurinn Snæbjörn Ragnarsson og er það byggt á klassísku ævintýrunum um Rauðhettu og úlfinn, Hans og Grétu og Grísina þrjá. Sögurnar eru fléttaðar saman á nýstárlegan og skemmtilegan hátt svo úr verður stærðarinnar ævintýr. Snæbjörn hefur einnig samið lög fyrir verkið ásamt bróður sínum Baldri og Mývetningnum Gunnari Ben.


Þetta er þriðja sumarið sem Leikhópurinn Lotta tekur sig til og setur upp barnasýningu. Sumarið 2007 var hið sívinsæla verk Torbjörns Egners, Dýrin í Hálsaskógi, sett á svið og í fyrra var það Galdrakarlinn í Oz í nýrri leikgerð Ármanns Guðmundssonar.
Miðaverð er óbreytt frá fyrri árum en miðinn kostar 1.500 krónur fyrir fullorðna og 1.000 krónur fyrir börn. Þetta er því ódýr fjölskylduskemmtun sem enginn má láta framhjá sér fara.


Þá ferðast hópurinn um landið með sýninguna og er áætlað að sýna á yfir 50 stöðum um allt land. Nánari upplýsingar um sýningarplan má finna á heimasíðu hópsins www.leikhopurinnlotta.is .