Þriðjudaginn 6. jan. 2015 komu félagar í Veðurklúbbnum á Dalbæ saman til fundar til að huga að hvernig síðasta spá, þ.e. fyrir síðast liðinn mánuð m.a. jóla og áramóta veðrið hefði gengið eftir. Hvað varðar spá klúbbsins fyrir desember mánuð og snjóalög um jól og áramót, þá voru fundarmenn ágætlega sammála um að spáin ein og sér hefði verið góð, þar versta við hana var að hún gekk ekki nógu vel eftir, hverju svo sem það er nú að kenna.
Búast má við að veður í janúarmánuði verði fremur umhleypingasamt. Heldur minni vindur en var í desember. Hitastig og úrkoma verði mjög breytilegt. Búast má við einhverjum breytingum með nýju tungli, sem kviknar þriðjudaginn 20. janúar í suðri kl. 13:14. Þetta tungl mun hafa áhrif á veðurfar seinnihluta janúar og eitthvað fram í febrúar.
Látum fylgja gamlan kveðskap, sem einn af klúbbfélögum Gunnar Rögnvaldsson lærði í æsku, en ekki er vitað um höfund
“ Tólf eru synir tímans,
sem tifa fram hjá mér.
Janúar er á undan,
með árið í faðmi sér.”
Veðurklúbburinn á Dalbæ