Á fundi Íþróttta-æskulýðs- og menningarráðs 30. des. var tilkynnt um val á Íþróttamanni Dalvíkurbyggðar 2004. Fundur var haldinn í safnaðarheimili Dalvíkurkirkju að viðstöddum forráðamönnum íþróttafélaga og þeim sem tilnefndir voru. Björgvin Björgvinssson skíðamaður er Íþróttamaður Dalvíkurbyggðar 2004. Björgvin, sem er einn besti skíðamaður landsins, hefur náð góðum árangri á alþjóðlegum mótum bæði hér á Íslandi og erlendis. Síðastliðinn vetur var honum erfiður en eftir stífar landsliðsæfingar birti til og til marks um það má nefna að Björgvin náði 5. sæti í svigi á fyrsta Evrópubikarmóti vetrarins sem haldið var innanhús í Hollandi. Þetta er besti árangur Björgvins hingað til og í raun annar besti árangur Íslendings á Evrópubikarmóti frá upphafi. Einnig náði Björgvin mjög góðum árangri á fyrsta stórsvigsmóti vetrarins sem haldið var í Finnlandi. Þar var hann í 30. sæti og fékk fyrir það eitt Evrópubikarstig sem tryggir honum betra rásnúmer á næsta móti. Björgvin er því greinilega á góðri siglingu um þessar mundir og það verður spennandi að fylgjast með honum á komandi vetri. Þetta er í fimmta sinn sem Björgvin hlýtur þennan titil og þriðja árið í röð.
Aðrir sem hlutu tilnefningar voru:
Haukur Snorrason fyrir golf
Ómar Freyr Sævarsson fyrir frjálsar íþróttir
Kristján Tryggvi Sigursson fyrir blak
Þorgerður Jóhanna Sveinbjarnardóttir fyrir sund
Ingvi Hrafn Ingvason fyrir knattspyrnu
Jóhann Heiðar Friðriksson fyrir körfuknattleik
Jóhann Björgvin Elíasson fyrir frjálsar íþróttir
Þorvaldur Eyfjörð Kristjánsson fyrir knattspyrnu
Agnar Snorri Stefánsson fyrir hestamennsku