Það verður ýmislegt um að vera í Dalvíkurbyggð um helgina. Í dag, föstudag, opnar nýr pitsastaður við Goðabraut 3 á Dalvík, Veró Pizzaría, og verður hægt að nýta sér ýmis tilboð í tilefni opnunarinnar.
Á laugardaginn er opna Coca Cola mótið í golfi haldið á Arnarholtsvelli, en það er Golfklúbburinn Hamar sem heldur mótið.
Leikhópurinn Lotta kemur einnig til Dalvíkurbyggðar á laugardaginn með nýjustu leiksýningu sína Rauðhettu. Sýnt verður á túninu fyrir neðan Dalvíkurkirkju og hefst sýningin klukkan 11:00. Sýnt er utandyra og er því um að gera að klæða sig eftir veðri og taka með sér teppi til að sitja á og hlýja sér ef kalt verður. Þetta er þriðja sumarið sem Leikhópurinn Lotta tekur sig til og setur upp barnasýningu.
Miðaverð er óbreytt frá fyrri árum en miðinn kostar 1.500 krónur fyrir fullorðna og 1.000 krónur fyrir börn. Nánari upplýsingar um sýningarplan má finna á heimasíðu hópsins www.leikhopurinnlotta.is .
Kvennahlaupið 2009 verður einnig á laugardaginn en í Dalvíkurbyggð verður hlaupið frá Sundlaug Dalvíkur og hefst hlaupið kl. 11:00. Kvennahlaupið verður nú haldið í tuttugasta sinn og í ár er yfirskrift hlaupsins “ TÖKUM ÞÁTT – HEILSUNNAR VEGNA” og er unnið í samstarfi við Krabbameinsfélag Íslands. Athygli er vakin á forvörnum í heilbrigðu líferni og að minna konur á mikilvægi þess að fara reglulega í skoðun hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins. Krabbameinsfélagið mun gefa öllum þátttakendum kvennahlaupsins sturtuspjald með leiðbeiningum um sjálfskoðun brjósta.
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands leitar eftir konum sem hafa tekið þátt í kvennahlaupinu í 20 ár. Vinsamlegast sendið ábendingar á Jónu Hildi Bjarnadóttur, framkvæmdastjóra kvennahlaupsins, á netfangið jona@isi.is.
Í tilefni af 20 ára afmælisins ætlar aðalstyktaraðili kvennahlaupsins, Sjóvá, að gefa öllum þátttakendum á aldrinum 18-55 ára fría líftryggingu að upphæð 1. milljón króna í eitt ár.