Yfirlýsing vegna fjárhagsstöðu Skíðafélags Dalvíkur

Yfirlýsing vegna fjárhagsstöðu Skíðafélags Dalvíkur -Tímabundið inngrip Dalvíkurbyggðar í rekstur Skíðafélags Dalvíkur.

Um miðjan apríl 2012 leituðu fulltrúar stjórnar Skíðafélags Dalvíkur til íþrótta- og æskulýðsfulltrúa og sviðsstjóra fræðslu- og menningarsviðs vegna erfiðrar fjárhagsstöðu félagsins.

Í sameiningu hófst vinna við að greina stöðu Skíðafélagsins. Í bréfi Skíðafélags Dalvíkur dagsett 17. maí 2012 til bæjaráðs Dalvíkurbyggðar óskar Skíðafélagið eftir viðræðum við Dalvíkurbyggð vegna skuldastöðu félagsins sem þá var orðin því ofviða. Bæjarráð tók erindið fyrir á fundi 24. maí og var niðurstaða þess fundar að bæjarstjóri, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs og íþrótta- og æskulýðsfulltrúi myndu afla frekari gagna.

Árseikningur og ársskýrsla Skíðafélagsins barst sveitarfélaginu eftir fund bæjarráðs og í framhaldi af því þann 1. júní var óskað eftir frekari skýringum á ársreikningi félagsins sem og frekari upplýsingum um ýmsa þætti sem hafa áhrif á fjárhagsstöðu þess. Í svari Skíðafélagsins dagsett 4. júní kom fram skuldastaða félagsins og hver kostnaður væri við að koma skíðasvæðinu í rekstur haustið 2012.

Erindið var tekið fyrir á bæjarráðsfundi 14. júní. Á þeim fundi var velt upp mörgum hugmyndum um þær lausnir sem eru tækar s.s. sala eigna og að sveitarfélagið kæmi ekki að málinu en jafnframt var farið yfir hvað þarf að breytast til að koma í veg fyrir að slík staða komi upp aftur. Einnig var mikil umræða um hlutverk og sérstöðu Skíðafélagsins en rekstur þess tekur mið af þjónustu við íbúa sveitarfélagsins, ferðamenn sem og iðkendur. Niðurstaða bæjarráðs var að kalla formann skíðafélagsins á fund og áttu bæjarstjóri, sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs og íþrótta- og æskulýðsfulltrúi fund með honum þriðjudaginn 22. júní. Eftir fund formanns og fulltrúa sveitarfélagsins sagði formaður Skíðafélags Dalvíkur af sér.

Stjórn Skíðafélags Dalvíkur var boðuð á fund bæjarráðs fimmtudaginn 24. júní. Þar fór fram samræða um stöðu Skíðafélagsins og mögulegar úrbætur. Dalvíkurbyggð gerði stjórn Skíðafélags Dalvíkur tilboð um tímabundna aðkomu að rekstri félagsins í eitt til tvö ár. Í því felst að ráðinn verði framkvæmdastjóri fyrir rekstur skíðasvæðisins og
Skíðafélags Dalvíkur. Framkvæmdastjórinn mun einn hafa prókúru fyrir félagið og er markmiðið að tveimur árum liðnum verði reksturinn kominn á réttan kjöl og starfsemin verði komin í þann farveg að heildarhagsmunir félagsins, skíðasvæðisins og alls samfélagsins verði hafðir að leiðarljósi. Innan tveggja ára taki stjórn Skíðafélags Dalvíkur alfarið við öllum rekstri og stjórnun þess. Framkvæmdastjóri mun á starfstímanum vinna í fullu samstarfi við stjórn Skíðafélags Dalvíkur og ber stjórn ásamt framkvæmdastjóra ábyrgð á rekstri og skuldbindingum. Á meðan verið er að vinna úr málum félagsins og Dalvíkurbyggð greiðir fyrir laun framkvæmdarstjóra mun samningur á milli sveitarfélagsins og Skíðafélags Dalvíkur taka mið af því.

Stjórn Skíðafélags Dalvíkur samþykkti tilboð Dalvíkurbyggðar og ætlar félagið að vinna heilshugar með sveitarfélaginu með velferð og tilgang Skíðafélagsins að leiðarljósi.


Þann 28. júní var samþykkt í bæjarráði að starf framkvæmdastjóra verði auglýst laust til umsóknar.


F.h. Bæjarráðs Dalvíkurbyggðar,
Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri