Vísbending hefur nú gefið út niðurstöður sínar vegna útnefningar um Draumasveitarfélagið, en það er það sveitarfélag sem statt er best fjárhagslega samkvæmt ákveðnum mælikvörðum. Miðað er við rekstrartölur úr ársreikningum sveitarfélaga árið 2010, sem eru að sjálfsögðu nýjustu tölur sem liggja fyrir.
Að þessu sinni er það Garðabær sem fær hæstu einkunn, 8,7 og er það eina sveitarfélagið sem fær einkunn yfir átta. Snæfellsbær er í öðru sæti með 7,4 stig. Dalvíkurbyggð er í þriðja sæti með 7,3 stig og hækkar um 0,9 stig á milli ára (úr 6,4 stigum) og hækkar þar með um eitt sæti á listanum. Þess má geta að á tveimur árum hefur einkunn Dalvíkurbyggðar hækkað úr 5,8 í 7,3. Næst á eftir koma svo Akureyri með 7,1 stig, Akranes með 7,0 stig og Hornafjörður með 6,8 stig.
Vísbending hefur í mörg ár skoðað fjárhag sveitarfélaga og gefið þeim einkunnir eftir nokkrum þáttum sem tengast fjármálum. Slík athugun getur auðvitað ekki veitt fullnægjandki svör vegna allra þeirra spurninga sem upp koma um fjárhagslegt bolmagn sveitarfélaganna. Einkunnagjöfin hefur oft vakið eftirtekt og stundum hafa sveitarfélög mótmælt niðurstöðunni því að hún mæli ekki lífsgæði í sveitarfélögunum. Því er rétt að undirstrika að einkunnagjöfin mælir fyrst og fremst fjárhagslega styrk sveitarfélaganna.
Forsendur draumasveitarfélagsins:
1) Skattheimta þarf að vera sem lægst. Sveitarfélög með útsvarshlutfallið 13,66% fá 10 og sveitarfélög með hlutfallið 14,48% fá núll. Skalinn er í réttu hlutfalli þar á milli.
2) Breytingar á fjölda íbúa þurfa að vera hóflegar. Fjölgun á bilinu 1,6 til 3,6% gefur 10 og frávik um 1% frá þessum mörkum lækkar einkunnina um einn heilan.
3) Afkoma sem hlutfall af tekjum á að vera sem næst 10% sem gefur einkunnina 10. Dreginn er frá 1 fyrir hvert prósentustig sem sveitarfélag er fyrir neðan. Þetta er breyting. Áður var dreginn frá hálfur fyrir hvert prósentustig yfir 10%.
4) Hlutfall nettóskulda af tekjum sé sem næst 1,0. Frávik um 0,1 yfir þessu hlutfalli lækkar einkunnina um 1,0 frá einkunninni 10. Frávik um 0,1 fyrir neðan þetta hlutfall lækkar hana um 0,5. Ef skuldur eru mjög litlar getur það bent til þess að svetarfélagið haldi að sér höndum við framkvæmdir. Þetta er breyting. Áður var miðað við brúttóskuldir.
5) Veltufjárhlutfall sé nálægt 1,0 (sem gefur 10) þannig að sveitarfélagið hafi góða lausafjárstöðu en hafi ekki of mikla peninga í lélegri ávöxtun. Frávik um 0,1 neðan við hlutfallið gefur 1 í frádrátt. Frávik um 0,1 fyrir ofan hlutfallið gefur 0,5 í frádrátt. Hlutfall yfir 2,0 gefur einkunnina 5.
Allir þessi þættir gilda jafnt.
Vísbending, 16.september 2011. 32. tölublað/29.árgangur