Veðurklúbburinn á Dalbæ hefur nú sent frá sér veðurspá sína fyrir maímánuð 2013. Ekki voru fundarmenn mjög glaðir með apríl spána enda kom í ljós að frekar vont hafði verið að spá í veðurhorfur þann mánuðinn vegna ýmissa óvissuþátta. Haft var eftir aðdáanda Veðurklúbbsins að það hefði í sjálfum sér verið allt í lagi með spána. Það hefði bara verið veðrið sem fór ekki eftir spánni.
Þrátt fyrir misgengi í spá og veðurfari í apríl er ekki um annað að ræða en að spá fyrir um veðurhorfur í maí mánuði þessa árs. Spámenn eru á því að veður í maí verði fremur margbreytilegt, en allar líkur eru á að tíð fari að batna verulega upp úr Hvítasunnu, enda kominn 20. maí og ekki seinna vænna að það fari að vora almennilega.
Föstudaginn 10 maí kviknar tungl í hánorðri kl. 09:00. Bendir það til þess að sunnan og vestanáttir verði ríkjandi í mánuðinum.
Gert er ráð fyrir góðu sumri þegar það loksins kemur, en nánar um það í upphafi hvers mánaðar.
Sumarkveðjur frá
Veðurklúbbnum á Dalbæ