Þriðjudaginn 3. október 2017 komu félagar í Veðurklúbbnum á Dalbæ saman til fundar til að huga að veðurhorfum októbermánaðar. Að venju var farið yfir sannleiksgildi síðustu spár og voru klúbbfélagar ágætlega sáttir við hvernig hún hafði gengið eftir. Tunglið sem er ríkjandi fyrir veðurfar fyrrihluta október kviknaði í NA 20. september. Síðan kviknar nýtt tungl í V. kl. 19:12 þann 19. október. Eftir þá tunglkomu má búast við kólnandi veðri og að ríkjandi vindáttir verði norðan og norðaustan. Líklegt er að snjói í fjöll og jafnvel í byggð, en sá snjór stendur stutt við. Framan af október verður veður svipað og verið hefur, það er breytilegar vindáttir og þokkalegt veður.
Veðurvísa október/nóvember.
Í október hefst skólinn
að bjóða börnum heim.
Í nóvember er náttlangt
í norðurljósageym.
Með góðri haustkveðju,
Veðurklúbburinn á Dalbæ