Veðurklúbburinn á Dalbæ kom saman til fundar þriðjudaginn 5. maí 2015. Farið var yfir spá klúbbsins fyrir aprílmánuð og voru fundarmenn þeirrar skoðunar að veðrið hefði verið heldur kaldara en menn reiknuðu með þó svo að spáin hafi í meginatriðum gengið eftir.
Hvað varðar veður í maí þá leggja klúbbfélagar til að fólk hafi föðurlandið við hendina fyrst um sinn því ætla má að maímánuður verði kaldur. Nýtt tungl kviknar 18. maí í NA kl. 04:13. Svo vitnað sé í Ríkharð Gestsson, þá var það hans trú að mánudagstungl væri annað hvort mjög gott eða mjög vont. Draumar klúbbfélaga benda til þess að síðari möguleikinn við þessa tunglkomu gangi eftir. Þó munu nú koma smá glennur af og til svo að fólk gleymi því ekki að það er komið sumar.
Með sumarkveðju,
Veðurklúbburinn á Dalbæ